Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 18:43:38 (3880)

2002-01-31 18:43:38# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[18:43]

Mörður Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Margt gott kom fram í ræðu hv. þm. og ég er sammála honum um að ýmsar þær athugasemdir einkum frá stjórnarþingmönnum sem komið hafa fram um þjóðaratkvæðagreiðslur almennt og þessa sérstaklega, einkennast af því nöldri sem heyrist þegar þjóðaratkvæðagreiðslur eru nefndar, og það nöldur held ég að eigi sér u.þ.b. 30--40 ára sögu, enda engin hefð fyrir hendi þar sem fulltrúarnir í fulltrúalýðræðinu hafa staðið mjög þétt gegn beinu lýðræði eða milliliðalausu lýðræði. Sumir hafa reyndar kannski aðeins betri stöðu til þess en aðrir, t.d. hv. 1. þm. Norðurl. e., sem því miður er farinn úr salnum, sem hefur átt þátt í frægum deilum við mektarmenn í samfélaginu og haldið hlut sínum gegn hinu beina lýðræði og milliliðalausu lýðræði.

Ég tel hins vegar að það sé rangt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og meðflutningsmönnum hans á þessari tillögu að setja ekki upp skýra kosti. Þegar spurt var í Danmörku eða Noregi eða Svíþjóð hvort menn vildu ganga þar í Evrópusambandið, þá var ekki sagt: Viltu ganga í Evrópusambandið eða viltu fresta því að ganga í Evrópusambandið? Það sem spurt var um var: Viltu þennan samning um aðild að Evrópusambandinu eða viltu ekki þennan samning að Evrópusambandinu? Það var spurning um já eða nei við ákveðnum kosti sem fyrir lá. Og það er líka þannig sem á að spyrja núna, já eða nei.

Það er undarlegt, og ég vakti athygli á því, að fá þetta svona frá flutningsmönnum og ég vil spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon klárlega að því: Kemur Kárahnjúkavirkjun til greina í hans huga í einhverju formi í einhverri ramma\-áætlun eða á einhvern átt á þeim stað sem nú er og á þann hátt sem nú er nokkurn veginn uppi? Ég vona að hann svari því hér í stólnum.