Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 18:45:44 (3881)

2002-01-31 18:45:44# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[18:45]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Afstaða okkar, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, liggur algjörlega ljós fyrir í þessu máli. Eins og ég sagði í fyrstu ræðu minni í dag mun ekki vefjast fyrir mér frekar en öðrum einlægum andstæðingum þessara virkjunaráforma að greiða atkvæði í kosningum sem færu fram á þessum grundvelli. Það er einmitt alveg einboðið hvernig við mundum kjósa.

Væri hins vegar hlutunum stillt upp með öðrum hætti kynni leiðir að skilja hjá hópum sem gætu átt góða samleið um þann kost sem við leggjum upp móti því sem ekki verður aftur tekið, sem er þá sambærilegt við að ganga inn í Evrópusambandið hér og nú á grundvelli gildandi samnings, að virkja. Þannig eru auðvitað kostirnir í þessu máli.

Við getum auðvitað rökrætt lengi dags um það hvaða tveir meginkostir eru í stöðunni og hvernig fram settir ef við erum sammála um að æskilegast sé að bjóða bara upp á tvo kosti. Það hefur mikla kosti í þessu sambandi ef verið er að leita eftir meginstraumum í vilja þjóðarinnar. Við getum lengi rökrætt hvernig væri þá best að lýsa þeim eða setja þá fram. En við skulum ekki gera það á þeim grundvelli að eindregnir andstæðingar virkjunaráformanna ættu í einhverjum erfiðleikum ef málið væri borið upp með þessum hætti. Að sjálfsögðu ættu þeir það ekki. Það sem gerist með því að kalla fram kosningu á þessum grunni er að þjóðin fær tækifæri til að koma í veg fyrir að stjórnvöld sem ætla sér að knýja þessa framkvæmd af stað geri það.

Ég leyfi mér þá að spyrja á móti þá þingmenn Samfylkingarinnar sem hér hafa talað á tiltölulega samræmdum nótum, og eru í raun og veru bæði með og á móti þjóðaratkvæðagreiðslu í málinu í vissum skilningi: Telja þeir einhvern ágreining um tæknilega útfærslu þessarar tillögu svo veigamikinn að betra sé að láta ekki kjósa og ríkisstjórnina fara sínu fram?