Frumvarp um afnám gjalds á menn utan trúfélaga

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 15:03:46 (3888)

2002-02-04 15:03:46# 127. lþ. 68.93 fundur 305#B frumvarp um afnám gjalds á menn utan trúfélaga# (aths. um störf þingsins), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[15:03]

Mörður Árnason:

Virðulegi forseti. Nú fyrir helgi var mér bent á galla í frv. okkar hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur um afnám gjalds á menn utan trúfélaga --- þetta er 417. mál á þskj. 676 --- gallar sem að óbreyttu hefðu orðið til þess að frv. hefði við samþykkt ekki náð þeim tilgangi sínum sem kemur fram í heiti þess, í greinargerð með því og í framsöguræðu og umræðum um sama frv. á Alþingi haustið 1999.

Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Ástu Möller þessa ábendingu.

Frv. hefur nú verið lagfært og prentað upp að minni ósk. Ég tel við hæfi að vekja athygli á þessu úr ræðustól þingsins til að menn geti áhyggjulausir búið sig undir efnisumræðu um þetta frv. um afnám þess gjalds á menn utan trúfélaga sem nú er innheimt með tekjuskatti samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987.