Breytingar á gjaldskrám til að ná niður verðlagi

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 15:07:16 (3890)

2002-02-04 15:07:16# 127. lþ. 68.91 fundur 303#B breytingar á gjaldskrám til að ná niður verðlagi# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það mun verða rétt að öllu staðið. Svo mikið er víst. Það sem fyrir liggur að því er varðar fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins er að sú afnotagjaldahækkun sem ráðgerð var og hefur nú verið afturkölluð átti að skila Ríkisútvarpinu 140 millj. kr. Ríkisstjórnin mun tryggja stofnuninni þessa fjárhæð eða ígildi hennar á þessu ári þannig að hún þarf ekki að kvíða í því efni.

Hins vegar að því er varðar önnur atriði sem hv. þm. nefndi og varða önnur skipulagsleg mál í menningarheiminum hér á landi, t.d. samskipti og samspil Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Ríkisútvarpsins, þá eru þau auðvitað annar handleggur. Það þarf að fara vel yfir þau atriði. Nýlega kom fram skýrsla um þessi mál og auðvitað má velta því fyrir sér í fullri alvöru hvort sú tenging sem í dag er á milli Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins eigi lengur rétt á sér. En það er hins vegar ekki mál sem upp kemur endilega í tengslum við þessa gjaldskrárákvörðun og afturköllun hennar.

Svo vil ég benda á að þó gjaldskrárhækkunin hafi verið afturkölluð núna þá er ekki þar með sagt að ekki megi einhvern tíma í framtíðinni breyta gjaldskrá afnotagjalda Ríkisútvarpsins ef þau verða áfram við lýði. Það er svo enn önnur spurning hvort halda eigi áfram að innheimta afnotagjöld með þeim hætti sem gert hefur verið um árabil eða breyta fjármögnun þessarar stofnunar í grundvallaratriðum. Það er umhugsunarefni sem er vert að þingmenn íhugi gaumgæfilega.