Breytingar á gjaldskrám til að ná niður verðlagi

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 15:11:48 (3893)

2002-02-04 15:11:48# 127. lþ. 68.91 fundur 303#B breytingar á gjaldskrám til að ná niður verðlagi# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[15:11]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því vinnulagi sem ríkisstjórnin er að kynna úti í bæ hvað varðar fjármál ríkisins sem heyra beint undir Alþingi. Framkvæmdarvaldið auglýsir að það eigi að fara að breyta nýgerðum fjárlögum og það ætlar framkvæmdarvaldið að gera fullkomlega á eigin spýtur. Ég vil minna á að um þetta gilda lög, lög um fjárreiður ríkisins. Þó að hæstv. ríkisstjórn finnist að hún búi við mikinn meiri hluta og geti boðið þinginu hvað sem er ber henni samt að virða lög. Að mínu viti eiga þessar fyrirhuguðu breytingar að gerast með þeim hætti að ríkisstjórnin leggi fram tillögur sínar til fjárln. og síðan til Alþingis og að Alþingi fjalli um þær. Alþingi gæti vel haft aðra skoðun á því hvernig eigi að draga úr útgjöldum á vegum ríkisins eða hvar eigi að létta á. Alla veganna eru það ekki að mínu viti rétt vinnubrögð að ákveða að skerða tekjustofn Ríkisútvarpsins sem Alþingi veit að býr við verulegt fjársvelti og auk þess stefnuleysi af hálfu ríkisvaldsins, að þar skuli vera gripið til einhliða aðgerða til að skerða tekjustofn þess án þess jafnframt að leggja þá fyrir Alþingi tillögur um hvernig úr skuli bætt.

Sinfóníuhljómsveitin situr uppi með tveggja ára ógreitt framlag í sinn hlut. Er ekki mál að virðulegur forseti kanni hvort vinnubrögð ríkisstjórnarinnar samræmist þarna eðlilegri þingmeðferð mála?