Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 15:54:04 (3908)

2002-02-04 15:54:04# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, Frsm. minni hluta SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[15:54]

Frsm. minni hluta menntmn. (Sigríður Jóhannesdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst slæmt að ágætur þingmaður, Kristján Pálsson, sem mér heyrist vera að leita sannleikans í þessu máli, skuli ekki hafa getað hlýtt á mál mitt því þá hefði hann ekki þurft að spyrja að því sem hann var að spyrja. Þegar menn eru í bestu meiningu að reyna að hafa það sem sannara reynist, þá langar mig að upplýsa að auðvitað eru til tölur um að svo og svo margir hafi meiðst í hnefaleikum, svo og svo margir sem hafi meiðst í handbolta og svo og svo margir sem hafi meiðst í fótbolta, en það er ekki til samanburður sem tekur með í reikninginn hversu margir stunda viðkomandi íþróttagreinar. Þess vegna er sá samanburður sem til er og tiltækur ekki marktækur.

Hins vegar tiltókum við það sérstaklega að það sem skildi meiðsl í hnefaleikum frá öðrum meiðslum í íþróttum, sem vissulega eru til og því höfum við aldrei neitað, er það sem hér kom fram og ég sé mig knúna til að endurtaka fyrir hv. þm. sem ekki virðist hafa haldið einbeitingunni þegar framsagan var flutt. Það stendur nefnilega:

,,Þannig má segja að meiðsl sem hljótast af iðkun hnefaleika séu ásetningur en ekki slys. Þar skilur á milli meiðsla sem hljótast af hnefaleikaiðkun og meiðsla sem hljótast af iðkun annarra íþrótta.``