Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 15:57:37 (3910)

2002-02-04 15:57:37# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, Frsm. minni hluta SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[15:57]

Frsm. minni hluta menntmn. (Sigríður Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þá er hulunni svipt af þeim leyndardómi og við vitum hvar hv. þm. stendur í þessu máli. Ég harma að hann skyldi misskilja mig þegar ég var að hrósa honum sérstaklega fyrir að hann væri að leita sannleikans í málinu en hefði ekki haft alveg erindi sem erfiði.

Ég held að það hafi komið mjög skýrt fram hér, bæði í framsögu minni og eins í svari mínu áðan að ekki eru til langtímarannsóknir í þessu máli, því miður. Ekki þannig að þær taki líka til fjöldans sem iðkar íþróttina.

Hins vegar eru til margar greinar. Eins og hér var tekið fram fann Grétar Guðmundsson læknir tíu greinar á netinu sem fjölluðu um skaðsemi hnefaleika og í sex af þessum greinum var því haldið fram að um skaðlega íþrótt væri að ræða. Í fjórum af þeim og var hins vegar hinu gagnstæða haldið fram og af þessum fjórum eru tvær eftir sama höfund. Ég mundi segja að þeir sem skrifa undir nál. séu að reyna að feta veg sannleikans í þessu máli með því að halda þessu öllu til skila. En ég vona að áður en hv. þm. tekur endanlega afstöðu í málinu og greiði atkvæði lesi hann bæði minnihlutaálit menntmn. og álit meiri hluta heilbrn.