Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 16:14:33 (3913)

2002-02-04 16:14:33# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[16:14]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt, ég held að Ísland sé eina landið sem bannar ólympíska hnefaleika eða áhugamannahnefaleika. Ég var að reyna að lýsa því áðan að við værum frekar lánsöm að vera í þeirri stöðu.

Þingmaðurinn minntist á að margar íþróttagreinar væru hættulegri og ég var að reyna að draga fram tölur frá 1998 til að sýna hvernig hægt er að villa um fyrir mönnum með tölum en þar kemur fram að það eru fleiri klappstýrur sem slasast eða koma á slysadeildir og eru skráðar á slysaskrá heldur en þeir sem slasast í hnefaleikum. Heldur þá hv. þm. að það sé hættulegra að vera klappstýra en að boxa? Ég held að hver maður hljóti að sjá að þetta eru ósambærilegar tölur. (Gripið fram í.)

Ekki stunda íþróttir sem geta valdið meiðslum, segir þingmaðurinn, en munurinn er sá eins og ég kom að í örstuttu máli mínu áðan að annars vegar er um að ræða slys, hins vegar er um að ræða vísvitandi áverka. Og á þessu tvennu er mikill munur.

Þingmaðurinn minntist einnig á höfuðhlífar og hanska. Það er staðreynd eftir þeim greinum sem ég hef séð að dregið hefur úr augnáverkum í áhugamannaboxi eftir að glófunum var breytt. Og það er af hinu góða. Það hefur hins vegar ekki dregið úr heilaskaða. Og það eru heilaskaðarnir sem standa upp úr og eru aðalvandamálið.