Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 16:20:11 (3916)

2002-02-04 16:20:11# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[16:20]

Mörður Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er á mælendaskrá í þessu máli og ætla ekki að gera efnislegar athugasemdir eða fyrirspurnir við ræðu hv. þm. Katrínar Fjeldsted sem ég virði mjög í málum af þessu tagi. Hún hefur reynt að leggja til einhvers konar málamiðlun með brtt. sinni um að heimilt sé að æfa áhugamannahnefaleika, en að keppni í öllum hnefaleikum verði bönnuð.

Ég vil aðeins spyrja hvernig þetta er hugsað í tilefni þess að nú er mjög í tísku meðal þingmanna að leiðrétta frv. hverjir fyrir öðrum og þingskjöl ýmis, þ.e. hvað hún meini með æfingum annars vegar og keppni hins vegar, vegna þess að í nál. minni hluta menntmn. stendur, með leyfi forseta:

,,Við þjálfun í sal eru menn að berja í púða en ekki hver annan. Höfuðáverkar þeir sem mikilvægt er að hindra verða í keppni og þegar þjálfað er í sal með andstæðingi (sparring).``

Þetta þurfum við að vita: Er þá einungis átt við það með þessari brtt. að menn geti barið í púða og þá með hönskum? Nú er það hægt með berum höndum. Það er löglegt að gera það með berum höndum. Ég gerði það t.d. í gær eftir að ég hafði séð Bubba Morthens að verki. Eða hvernig er það hugsað? Er leyfilegt að þjálfa með andstæðingi, vera sem sagt í sparring eins og stendur í þessu minnihlutaáliti?