Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 16:40:20 (3923)

2002-02-04 16:40:20# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, Frsm. minni hluta SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[16:40]

Frsm. minni hluta menntmn. (Sigríður Jóhannesdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sá sem talaði á undan mér talaði um slysahættu af ólympískum hnefaleikum og að í rannsóknum hefði komið í ljós að slysahætta í ólympískum hnefaleikum væri mun minni en í mörgum öðrum greinum. Það kom fram í ræðu minni fyrr í dag að í þeim rannsóknum var ekki verið að bera saman sambærilegar tölur. Ekki var tekið tillit til fjölda iðkenda þegar þær tölur voru bornar saman. Þess vegna voru þær ekki sambærilegar vegna þess að ef við ætlum að fá einhvern marktækan samanburð verðum við að bera saman sambærilega hluti.

Það er alveg réttlætanlegt, þó að ég hafi ekki gert það hér í dag, að tala um Múhameð Alí og þá höfuðáverka sem hann fékk á keppnisferli sínum vegna þess að það kom fram í vitnaleiðslum fyrir bæði menntmn. og heilbrn. að höfuðáverkar sem keppnismenn fengju í ólympískum hnefaleikum og þungavigtarhnefaleikum væru sambærilegir. Þessi vörn, þessi svokallaða hlíf, veitti ekki vörn gagnvart þeim höfuðáverkum sem hættulegastir eru.

Þess vegna verð ég að segja að ég harma það. Ef hægt væri að sýna fram á að þessi hlíf veitti þá vörn að slíkir höfuðáverkar yrðu ekki, þá mundi ég standa öðruvísi að málum við þá atkvæðagreiðslu sem hér er í vændum. En því miður, það hefur ekki verið hægt að sýna fram á gagnsemi þessarar hlífar.