Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 16:47:40 (3927)

2002-02-04 16:47:40# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[16:47]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það að þetta eru ólíkar íþróttagreinar. En höggin sem lenda á höfði hafa sambærileg áhrif. Þess vegna geta Alzheimer- og Parkinson-sjúkdómur og minnisleysi líka verið afleiðing af höfuðhöggum á boxara sem eru í áhugamannaboxi. Það bara snýst um þetta. Af hverju í ósköpunum heldur þingmaðurinn að læknasamtök víða um heim vari við þessu? Af hverju heldur þingmaðurinn að evrópskir læknar séu að skora á boxsambönd áhugamanna að breyta þessum reglum og hætta að slá í höfuð? Af hverju heldur þingmaðurinn að evrópskir læknar séu að skora á Alþjóðaólympíunefndina að taka boxið út úr Ólympíuleikunum? Það er vegna þess að þeir sjá afleiðingarnar. Það er málið. Þetta snýst um það.

Varðandi tölfræðina og tölurnar sem við vorum með hérna áðan ætla ég að segja í þriðja sinn í þessari umræðu í dag að samkvæmt þeim er hættulegra að vera klappstýra í fótboltaleik eða á íþróttaleik í Bandaríkjunum en að vera í boxi. Heldur þingmaðurinn að það séu sambærilegar tölur og réttar tölur? Ég held hann hljóti að sjá að svo sé ekki.