Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 16:55:53 (3932)

2002-02-04 16:55:53# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[16:55]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það kemur mér mjög spánskt fyrir sjónir að hv. þm. líti svo á að það sé meira ígildi laga hér á landi hvað ÍSÍ segir en alþingismenn.

Ég er hér með fréttabréf frá ÍSÍ og, með leyfi forseta, vil ég aðeins vitna til þess sem þar stendur:

,,Á fundi verkefnissjóðs ÍSÍ þann 17. janúar sl. var tekin sú ákvörðun um að styrkja Félag áhugafólks um lögleiðingu ólympískra hnefaleika á Íslandi um 150.000 kr.``

Þeir eru að styrkja Félag áhugafólks um lögleiðingu ólympískra hnefaleika á Íslandi um 150.000 kr. Er það brot gegn lögum sem ÍSÍ er að gera? Ég sé það ekki í þessari fréttatilkynningu frá ÍSÍ. Þar af leiðandi segi ég aftur: Það virkar miklu þyngra í þennan hóp alþingismanna hér að alþingismenn þekkist jafnvel boð um að mæta í sali þar sem box er stundað. Það er rétt sem hv. þm. Hjálmar Árnason kom hér inn á að þetta er þegar komið á fleygiferð, þó það ráði ekki þeirri afstöðu minni að leyfa eigi ólympíska hnefaleika. Það ræður ekki afstöðu minni þó menn séu byrjaðir að æfa box á þann hátt sem hér er gert. En ég hugsa samt að ég muni ekki þekkjast boð um að mæta á svona íþróttastaði fyrr en að lögum samþykktum.