Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 16:59:48 (3935)

2002-02-04 16:59:48# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, MÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[16:59]

Mörður Árnason:

Virðulegi forseti. Lögin sem hér um ræðir voru sett árið 1956. Það er grundvöllur máls þegar um þetta er rætt að virða fyrir sér þá tíma sem mynda bakgrunn laganna um bann við hnefaleikum. Ég hygg að sagnfræðingar og félagsfræðingar muni túlka þau lög í því samhengi að Íslendingar höfðu þá ekki fyrir löngu tekið stórkostleg stökk inn í nútíma sem einkenndist af allt öðrum aðstæðum, félagslegum, atvinnulegum og menningarlegum en menn höfðu átt að venjast fram að því. Búháttarbreytingar, þær mestu sem í sögunni hafa orðið, höfðu gerst á áratugunum sem þarna fóru á undan. Menningarlegar breytingar sem þá voru að verða og áhrif sem þá höfðu stóraukist á svo sem 10--15 árum sem liðin voru, voru af mörgum talin ógna framtíð íslenskrar menningar og þess mannlífs sem menn höfðu þá tamið sér að líta á sem nauðsynlega forsendu þess að vera Íslendingur. Árið 1956 hljóma úr vestri og auðvitað úr þeirri herstöð, eða herstöðvum, sem hér hafði verið reist tónar sem taldir voru æra íslenska æsku og vera hættulegir menningu okkar. Alls kyns fyrirbrigði önnur voru á ferðinni og ekki síst, eins og ég nefndi, voru aðeins liðin fimm ár frá því að hingað var tilkvaddur erlendur her, sem menn þekktu á þessum tímum, á þeim 16 árum sem liðin voru frá hersetunni í upphafi, að gjörbreytti öllum aðstæðum Íslendinga og ungs fólks.

[17:00]

Það var engin furða, og ekki síst miðað við hvernig hnefaleikar voru þá skipulagðir, að mönnum hér á þinginu skyldi koma til hugar að banna þessa íþrótt. Síðan hefur ósköp einfaldlega margt gerst. Sem betur fer hafa þeir sem bölsýnastir voru á þessum tíma haft rangt fyrir sér um íslenska menningu og íslenska reisn. Hnefaleikaíþróttin hefur líka breyst verulega, aðskilnaður milli áhugahnefaleika og hnefaleika atvinnumanna hefur orðið mjög skýr, þannig að þegar við tökum þetta hér til umfjöllunar að 46 árum liðnum höfum við aðra stöðu.

Við skulum ekki falla í þá gryfju að hallmæla þeim sem fyrir þessu stóðu á sínum tíma. Þeir gerðu það af ástæðum sem þeim fannst vera réttar og sannar. Við skulum hins vegar ekki halda uppi reglum sem ekki byggjast á samhengi við þann samtíma sem við nú lifum og ég er hingað kominn til að styðja það mál að rjúfa þessa íþróttalegu einangrun Íslendinga árið 2002.

Eitt af því sem auðvitað hefur breyst og framsögumenn vitna til er að við búum nú við öfluga, vel skipulagða og fullburða íþróttahreyfingu með eftirlitsnefndum og eftirlitstækjum af öllu tagi í góðri samvinnu við lækna og sjúkraþjálfara sem ég hygg að séu viðstaddir nánast hverja einustu keppni sem fram fer í íþróttum á vegum Íþrótta- og Ólympíusambandsins. Þessi íþróttahreyfing, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, starfar mjög náið í alþjóðlegum tengslum eins og á hefur verið minnst, m.a. með ólympíuhreyfingunni sjálfri, og þess vegna er ekki hætt við því eins og e.t.v. var árið 1956 þegar þeir Steini box og Jón Múli voru upp á sitt besta að þjálfa, með andstæðingum eða án, að öryggi þeirra sé hætt vegna búnaðar eða misskilnings um tækni og reglur í þessari íþróttagrein.

Má ég segja það líka meðan ég dvel við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands að mér þykir nokkuð skorta á drengskap hjá hv. þm. Katrínu Fjeldsted þegar hún heggur að sambandinu vegna þess að það hefur veitt áhugamönnum um að þessi íþrótt verði tekin upp styrki. Það hefur alltaf verið ljóst að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur verið andstætt þessum lögum sem hér koma fram. Það væri furðuleg hegðun hjá löggjafanum að útiloka frá styrkveitingum eða stuðningi þau samtök aðila eða félög sem hafa athugasemdir við einstök lög í landinu. Þá værum við komin yfir í aðra gerð af samfélagsskipan en við búum við.

Það er ekki margt nýtt sem hægt er að færa fram í þessu, og ég geri mér engar sérstakar væntingar um að færa það hér fram, en ég kemst ekki hjá því í þessari ræðu að minnast á þetta hugtak sem andstæðingar málsins nota, hugtakið árásaríþrótt. Ég óska eftir að þeir geri mér betri grein fyrir notkuninni hafi þeir einhvern fræðilegan stuðning, fræðilega uppsprettu eða forsendur, fyrir að kalla þessa íþrótt árásaríþrótt. Auðvitað er það rétt að hún lýtur ákveðnum reglum sem menn geta svo túlkað út og suður en ég kannast bara hreinlega ekki við þessa flokkun á íþróttum og vara mjög við henni.

Eins og menn væntanlega vita spretta íþróttir upp af einhvers konar mannlegu atferli eða hegðun. Langstökk er væntanlega sprottið af því að menn hafa þurft að stökkva yfir gjár og sprungur og fen og kviksyndi og þannig mætti kannski rekja hverja íþrótt fyrir sig. Sumar íþróttir eru auðvitað sprottnar af átökum manna í milli. Það er ósköp einfaldlega hegðun úr dýraríkinu sem við komumst seint hjá eins og hv. þm. þekkja, jafnvel hér í þingsal. Það þýðir auðvitað ekki að sú íþrótt sem sprottin er upp úr þessu lúti sömu lögmálum eða hafi sömu forsendur og það athæfi sem hún kann að hafa verið dregin af eða þróast af.

Ef menn færu að flokka íþróttir á annað borð eftir þessu, hvort þær eru árásaríþróttir, sóknaríþróttir eða varnaríþróttir, kynni að verða þröng fyrir dyrum þeirra búandkarla því margar þessar íþróttir eru auðvitað allt þetta í senn. Það er t.d. þannig með knattspyrnu, hún er auðvitað sóknaríþrótt að því leyti að menn þurfa að skora mörk, en hún er jafnframt varnaríþrótt því að menn reyna að koma í veg fyrir að mörk séu skoruð hjá sínu eigin liði. Stigin fást hins vegar ekki fyrir þær varnir sem veittar eru heldur fyrir þau mörk sem skoruð eru og svipað er þetta auðvitað í hnefaleikum, að stigin fást fyrir þau högg sem menn ná á andstæðinginn, en ekki fyrir þau högg sem menn verjast sjálfir. Ég skil því ekki þetta hugtak og vara við því að það sé mikið haft í frammi í þessari umræðu.

Að lokum þetta, virðulegi forseti, ég ætlaði ekki að tala hér lengi, en það gengur auðvitað ósköp einfaldlega ekki í því nútímasamfélagi sem við lifum í og í því alþjóðasamfélagi sem við verðum alltaf meiri og meiri hluti af að við bönnum hér íþrótt sem er háð á Ólympíuleikunum. Við getum tekið það til athugunar ef sú íþrótt eða aðrar eru bannaðar alþjóðlega og vikið af Ólympíuleikunum hvað við eigum að gera í því máli en það er auðvitað bara eins og hver önnur heilbrigð skynsemi að taka þátt með öðrum þjóðum í þeim íþróttum sem hafa þá hefð og þá stöðu að vera stundaðar á þeim merku leikum.