Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 17:09:11 (3936)

2002-02-04 17:09:11# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[17:09]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Þann 13. maí árið 2000 felldi Alþingi Íslendinga í atkvæðagreiðslu að aflétta banni því sem komið var í lög árið 1956, um keppni eða sýningu á hnefaleik.

Hv. flutningsmenn þeirrar tillögu sem hér er til umfjöllunar eru trúlega með þrjóskari alþingismönnum, a.m.k. meðal þeirra sem sitja nú á þingi, því þeir hafa haft fyrir því að flytja tillögu sína þrisvar sinnum á þessu kjörtímabili og taka ekki nei-i Alþingis sem fékkst í atkvæðagreiðslu þann 13. maí árið 2000 sem svari. Það er kannski kaldhæðni örlaganna að núna kemur fram brtt. frá meiri hluta menntmn. við frv. sem leiðir það í ljós að hv. flutningsmenn tillögunnar hafa ekki einu sinni vitað hvað íþróttin heitir sem þeir eru að leggja til að hér verði leidd í lög þar sem meiri hluti menntmn. hefur komist að þeirri niðurstöðu að íþróttin heiti alls ekki ólympískir hnefaleikar heldur áhugamannahnefaleikar, og í þessum þremur setningum sem frv. telur hefur meiri hluti menntmn. þurft að gera brtt. við allar greinarnar, við allar setningarnar þrjár. Manni þykir það hálfpínlegt, herra forseti, að hv. flutningsmenn skuli í þrígang geta flutt hér frv. á Alþingi sem er svo meingallað sem meiri hluti menntmn. er nú búinn að leiða í ljós.

Frá því að Alþingi felldi í atkvæðagreiðslu þann 13. maí árið 2000 að ólympískir hnefaleikar yrðu heimilaðir á Íslandi hefur borið á því að lögin frá 27. desember 1956 séu brotin. Bæði hefur það gerst að hnefaleikafélög hafa verið stofnuð, þau hafa hafið þjálfun eða kennslu í hnefaleikum, þjálfunarbúnaður hefur verið auglýstur til sölu, æfingasalir hafa auglýst þjálfun í boxi og nú síðast hefur forusta Íþróttasambands Íslands séð ástæðu til að viðurkenna fyrir sitt leyti íþrótt sem lög frá Alþingi banna að sé stunduð.

Þetta eru út af fyrir sig alvarlegar staðreyndir, herra forseti, og gefa fullt tilefni til að ætla að eftirliti með lögum þessum hafi verið ábótavant. Það eitt og sér er áhyggjuefni sem stjórnvöld ættu að sjálfsögðu að gefa frekari gaum. Ég átel því í máli mínu að þau stjórnvöld sem fara hér með lög og reglu skuli ekki hafa brugðist við þegar þessi lög sem hafa hér verið í fullu gildi frá 1956 hafa verið þverbrotin aftur og aftur svo að öll þjóðin hefur mátt þola. Önnur lög í þessu landi fengju ekki slíka meðferð, yrðu ekki brotin þvers og kruss, aftur og aftur, ár eftir ár, átölulaust af stjórnvöldum.

Herra forseti. Af því að rætt hefur verið um það í þessum sal nú í dag að ÍSÍ, sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson kallaði leiðarljós íslenskrar æsku í íþróttamálum, hafi einungis verið að veita áhugafólki um lögleiðingu ólympískra hnefaleika einhverja styrki tel ég nauðsynlegt að hér komi fram, herra forseti, það sem kom fram fyrir augu og eyru alþjóðar í sjónvarpsfréttum í gærkveldi. Ég ætla að vitna beint í fréttina en fréttaþulur sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Íslenskir áhugahnefaleikarar hafa fengið 150 þúsund króna styrk frá Íþróttasambandi Íslands til að vinna að upplýsinga- og fræðslustarfi. Stjórn félags áhugafólks um ólympíska hnefaleika lítur þannig á að með styrknum sé Íþróttasamband Íslands að viðurkenna hnefaleika formlega sem lögmæta og fullgilda keppnis- og íþróttagrein.``

Herra forseti. Eftir að fréttaþulur sagði síðan eitthvað á þá leið að Íþróttasamband Íslands hefði ætíð staðið við bakið á áhugahnefaleikamönnum frá því að þeir hófu baráttu sína segir forseti ÍSÍ, Ellert B. Schram, með leyfi forseta:

,,... enda er hér um að ræða löglega og viðurkennda íþróttagrein. Og við skiljum ekki hvers vegna eigi að banna fólki að stunda þá íþrótt sem það hefur áhuga á.``

Herra forseti. Ég lýsi furðu minni á þessum ummælum forseta Íþróttasambands Íslands. Þau ummæli hafa komið hér fram áður í máli hv. þm. Katrínar Fjeldsted varðandi þá gjörð og þá ákvörðun ÍSÍ að veita þennan fjárstuðning. Ég lýsi furðu minni á því að menn skuli ekki æsa sig meira yfir því, í sannleika sagt, því mér finnst Íþróttasamband Íslands hafa farið hér illa að ráði sínu, og þessi gjörð og þessi styrkur því sambandi ekki til sóma.

[17:15]

Herra forseti. Margt hefur verið sagt í þessu máli í þau þrjú skipti sem það hefur verið flutt hér á þinginu. Það er óþarfi fyrir mig að endurtaka mikið af því sem ég áður hef sagt í ræðum eða fara enn ofan í það minnihlutaálit menntmn. sem hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir hefur gert hér mjög góða grein fyrir.

Ég get þó ekki látið hjá líða, herra forseti, að vitna orðrétt í samþykkt fastanefndar evrópskra lækna frá 22. sept. árið 2001, sem birt er sem fskj. með minnihlutaáliti menntmn. Þar koma fram staðreyndir sem flytjendur þessa máls neita að horfast í augu við, neita að hlusta á og neita að taka þeim rökum sem samþykkt fastanefndarinnar hefur að geyma og rökum læknafélaga sem víða um heim hafa barist gegn þessum áhugamannahnefaleikum. Þessir flutningsmenn tillögunnar neita að hlýða á þessi rök. Því til staðfestu má náttúrlega nefna kostulega ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar hér áðan þar sem hann mætti í ræðustól, nánast með bananana í eyrunum, og hafði greinilega ekki heyrt orð þeirra þingmanna sem þó hafa talað hér mjög skýrt og skorinort gegn þessari lögleiðingu. Hv. flutningsmenn þvertaka fyrir að hér séu rök í málinu og það er þeim ekki til sóma.

En samþykkt fastanefndar evrópskra lækna frá 22. sept. 2001 segir varðandi hnefaleika og höfuðáverka eftirfarandi, með leyfi herra forseta:

,,Bæði bráðir og langvarandi höfuðáverkar eru algengir fylgikvillar í ýmsum íþróttum, einkum hnefaleikum, bæði hjá áhugamönnum og atvinnumönnum. Hnefaleikar skilja sig þó frá öðrum íþróttum að því leyti að þar er leyfilegt að beina höggum að höfðinu. Af þeirri ástæðu er ekki hægt að bera höfuðáverka í hnefaleikum saman við tilfallandi höfuð\-áverka sem koma til án ásetnings, t.d. í knattspyrnu, ruðningi, hjólreiðum eða hestamennsku. Hnefaleikar atvinnumanna hafa verið bannaðir í mörgum löndum en hnefaleikar fyrir áhugamenn njóta vaxandi vinsælda í mörgum löndum og hafa verið keppnisgrein á Ólympíuleikum um langt skeið. Í ólympískum hnefaleikum er skylt að læknir sé viðstaddur þegar barist er. Fastanefndinni ber, sem læknisfræðilegum samtökum, að taka alvarlega rökstuddan vitnisburð um heilaskemmdir sem orsakast hafa af íþrótt þessari og hún ætti að skoða leiðir til að bægja frá, eftir því sem mögulegt er, hættunni á áverkum á taugakerfið.

Sýnt hefur verið fram á að notkun ,,höfuðhlífa`` ver yfirborð höfuðsins og eyrun, en verndar ekki heilann. Það er á stefnuskrá margra landssamtaka lækna að banna hnefaleik. Breska læknafélagið hefur lagt til að höfuðhögg verði bönnuð. Ein rannsókn sýndi að í áhugamannahnefaleikum fengu keppendur að miðgildi átta höfuðhögg. Af þeim sem athugaðir voru fengu 65% tíu eða færri höfuðslög en 35% fengu yfir tíu. Heilahristingur, með eða án meðvitundarleysis, kom oft fyrir. Í 13% tilvika endaði keppnin með rothöggi eða dæmt var tæknilegt rothögg. Fjöldi annarra rannsókna hefur leitt til svipaðra niðurstaðna um skammtímaáhrif. Þó þarf fleiri rannsóknir á tíðni fylgikvilla þegar til lengri tíma er litið.

Um þó nokkurn tíma hefur verið viðurkennt að högg fyrir neðan beltisstað skuli ekki leyfð, vegna hættunnar á áverkum á kynfæri. Við teljum að sömu virðingu beri að sýna heilanum. Því leggjum við til að fastanefndin samþykki eftirfarandi stefnu:

Fastanefnd evrópskra lækna tekur að fullu undir þá stefnu Alþjóðlegu læknasamtakanna að banna ætti hnefaleika en meðan því hefur ekki fengist framgengt leggur hún til að reglum í hnefaleikum verði breytt þannig að höfuðhögg verði bönnuð.

Því hvetur fastanefndin Alþjóðaólympíunefndina og landssamtök og alþjóðasamtök um hnefaleika til að banna höfuðhögg, bæði í atvinnumanna- og áhugamannahnefaleikum.``

Tilvitnun í þetta álit fastanefndar evrópskra lækna frá 22. sept. 2001 er hér lokið.

Herra forseti. Í framhaldi af þessum lestri spyr ég: Telja hv. þm. að Íslendingar séu hér á undan eða eftir nágrannaþjóðum sínum? Kannski erum við svo lánsöm, eins og hv. þm. Katrín Fjeldsted orðaði það, að vera hér á undan nágrannaþjóðum okkar sem núna eru að íhuga bann við höfuðhöggum í öllum íþróttum. Ég hef lýst því áður úr þessum ræðustóli, herra forseti, að ég er fylgjandi því að bann við höfuðhöggi gildi í íþróttum sem maður eiginlega fyrirverður sig fyrir að kalla íþróttir, eins og taekwondo og kumite. Ef það er bannað á Íslandi á grunni mögulegs heilaskaða í hnefaleikum að iðka hnefaleika ætti að sjálfsögðu að gilda svipað bann um aðrar íþróttir sem valda álíka skaða.

Íslendingar eiga ekki að þurfa að bera neinn kinnroða fyrir því að fara hér í broddi fylkingar nágrannaþjóðanna. Við eigum að segja með stolti að við séum svo lánsöm að þetta bann skuli hafa verið hér í gildi síðan 1956 og við eigum að bera höfuðið það hátt að geta staðið við það að halda þessu banni við enda erum við hvött til þess af læknum úti um allan heim.

Herra forseti. Það eru ekki margar ræður sem maður heyrir fluttar af jafnmikilli sannfæringu úr þessum stóli og ræður læknisins, hv. þm. Katrínar Fjeldsted, sem mælir hér af mikilli visku og þekkingu gegn því máli sem hér er til umfjöllunar. Þeir þingmenn eru með ansi þykkan skráp sem neita að láta orðræðu læknisins hafa áhrif á sig.

Herra forseti. Fari svo að hv. Alþingi lyppist niður í þessu máli, ætli þess verði þá langt að bíða að ungir Íslendingar sjáist barðir í spað í keppni í hnefaleikum á erlendri grund? Og ætli, herra forseti, íslenskir alþingismenn verði þá stoltir yfir því að hafa lyppast niður?