Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 17:44:50 (3938)

2002-02-04 17:44:50# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[17:44]

Mörður Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að hryggja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon með því að hér verður honum veitt ofurlítið andsvar.

Ég hef verið að lesa þessi plögg. Það er augljóst að um það er deilt hver áhrif þessi höfuðhögg eigi að hafa. Ég tek eftir því að minni hluti heilbrn., hv. þm. Ásta Möller, sem er vel að sér í heilbrigðismálum, telur það sé umdeilt og óvíst og ekki lýgur hv. þm. Ásta Möller. Það get ég sagt ykkur.

Það sem ég vil þó segja um þetta enn frekar er: Menn verða auðvitað að hafa einhverja stjórn á sjálfum sér í umræðu af þessu tagi. Það er ekki vit í því að bera þetta saman við reiðhjólahjálma og bílbelti. Það er ekki vit í því að jafna saman því að Íslendingar banni hnefaleika við það að þeir hafa haft forustu í hafréttarmálum. (Gripið fram í.) Þetta var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að bera saman. Þetta er auðvitað ekki sambærilegt á nokkurn hátt. Það sem kannski er sambærilegt er að við höfum núna undanfarin ár og áratugi verið að afnema ýmis söguleg höft eins og að drekka ekki bjór og hafa ekki hunda í höfuðborginni. Einu sinni var það talið til kosta að hafa ekki sjónvarp á fimmtudögum og ýmis sérkenni sem íslenskt samfélag hafði og voru kannski ágæt á sínum tíma. Meginmálið er þetta og ég er viss um að hv. þm. hefur mismælt sig en hann sagði: Hvers konar samfélag er það ef það væri almenn regla að menn gætu gert það sem þeim sýnist? Ja, hvers konar samfélag væri það? Meginreglan í samfélagi okkar er sú að menn geti gert það sem þeim sýnist en við getum sett ákveðnar reglur um hvernig það fari fram þeim og öðrum til heilla og öryggis.