Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 17:56:53 (3940)

2002-02-04 17:56:53# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, KVM
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[17:56]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hver er nautn skáklistarinnar? (ÍGP: Engin.) Hún er mikil fyrir þá sem hugsa og hafa gaman af því að pæla út leiki og finna út fléttur. En nautnin er að sigra að lokum. Hið sama má segja um handknattleikinn. Það var virkilega ánægjulegt að sjá þegar okkar menn voru að sigra í handboltaleikjunum á Evrópumótinu um daginn. Hver er útrásin hjá þeim líka? Það var sigurinn og leikurinn. Það er sigurinn. Hver er útrás boxíþróttarinnar og nautn? Er það ekki sigurinn? Hver er nautn þeirra sem horfa á boxið, sem fara þúsundum saman og eyða milljónum til að koma á keppni á milli manna í þessari íþróttagrein? Er það ekki að sjá andstæðinginn liggja flatan, rotaðan?

Eigum við ekki tala umbúðalaust um hlutina, herra forseti? Snýst ekki málið um það í boxinu? Er ekki útrás þessarar íþróttar sú að menn fái útrásina í að sigra andstæðinginn, slá hann niður? Eða er það að koma á einhverjum tæknilegum höggum á andstæðinginn? Ég hef algerlega misskilið markmiðið af það er einhvern veginn öðruvísi.

Þetta er, herra forseti, náttúrlega mjög tilfinningalegt fyrir fólk. Það er af tilfinningalegum ástæðum hjá mörgum að þeir tala með eða móti boxi, hvaða afstöðu sem fólk hefur. Ég segi fyrir mitt leyti að þessi íþrótt höfðar ekki til mín. Ég get ekki stutt þetta mál vegna þess að í grundvallaratriðum erum við að mæla með því að lögleiða íþrótt sem byggist upp á útrásinni við að berja niður mann. Það er bara þannig. Það er sama hvað menn segja um að menn séu í þessu til þess að verða flinkir í að gefa tæknileg högg eða eitthvert vink, menn fái stig og hrópi svo húrra.

Ég hef stundum séð, og ætla ekki að fara að hræsna með það neitt, herra forseti, það var ekkert óvart, svona hnefaleika í sjónvarpinu. Mér finnst það frekar ógeðfellt. Því verða menn æstari og ánægðari eftir því sem andstæðingurinn er verr leikinn.

Margs er að spyrja þá sem mæla með því að við lögleiðum svokallaða ólympíska hnefaleika --- hugtak sem ég held að sé hvergi til í veröldinni nema hér, það verður þá leiðrétt ef annað kemur í ljós. Sá sem er að greiða höggið í slíkri keppni er ekki að gera það til að fá stig. Hann er náttúrlega að því til að reyna að rota andstæðinginn. Þannig er það. Ég fæ ekki séð að þessi íþrótt snúist um neitt annað.

Ég ítreka það sem ég hef verið að segja, að útrás eða nautn íþróttarinnar felst í að fella andstæðinginn og helst rota hann. Ef hann er rotaður, þá öskra menn hærra og meira. (ÍGP: Sá rotaði?) Ekki sá rotaði, nei, heldur hinir, sá sem rotar og hinir sem horfa á og kannski margir sem öskra af vonbrigðum yfir að hafa tapað einhverjum peningum ef þeir hafa veðjað á hinn rotaða. En gaman þætti mér að vita, herra forseti, hversu margir þeirra sem flytja þetta mál eru í hjarta sínu hlynntir því að við lögleiðum venjulegt box, venjulega hnefaleika. Gætu flutningsmenn þessa frv. staðið hér og sagt: Við eru algerlega andvíg því að innleiða hnefaleika eins og þeir eru stundaðir, t.d. í Bandaríkjunum og víðar? Geta þau komið hér og sagt, herra forseti, sem svo: Við erum andvíg venjulegu boxi en við viljum einungis lögleiða ólympíska hnefaleika, eins og þau kalla það.

Ég á erfitt með að sjá fyrir mér, herra forseti, tvo 10 ára stráka á æfingum í hnefaleikum. Annar stendur yfir hinum, kannski búinn að rota hann. Ég á erfitt með að sjá fyrir mér, herra forseti, að slíkt sé löglegt.

Við gætum ímyndað okkur annað, herra forseti, að allt okkar ágæta handknattleikslið, hver og einn einasti þeirra, væru boxarar og hefðu farið í boxferðalag til Bandaríkjanna. Ég er viss um að handboltamennirnir væru ekki eins hressir og þeir eru í dag ef þeir hefðu farið í slíka ferð. Við vitum að það er hægt að beina unglingum og ungmennum inn á ákveðnar brautir í vali á íþróttum. Foreldrarnir eiga að hafa áhrif á börn sín, hvaða stefnu líf þeirra tekur og geta t.d. beint börnum sínum á þá braut að fara í handknattleik, knattspyrnu, sund og margt annað sem veitir mikla útrás, gleði, ánægju og nautn.