Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 18:13:17 (3945)

2002-02-04 18:13:17# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[18:13]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Lífið gengur út á það að velja og hafna. Þessi umræða um boxið hefur verið einstaklega sérkennileg allt frá því að þessi tillaga kom fyrst fram. Við höfum eytt ótrúlegum tíma í þetta mál. Það er alveg sama hvað þetta hefur dregist á langinn, aldrei bætist í raun neitt við. Á tímabili reyndi ég að sjá björtu hliðarnar á þessu og kannski húmorísku hliðarnar þegar mest var deilt hérna. Þetta minnti mig pínulítið á það þegar konur taka slátur að haustlagi, blóðugar upp að öxlum því að umræðurnar voru með þeim hætti. Menn gerðu svo mikið úr hættunum að þessu mátti eiginlega líkja við blóðugt stríð. Ég viðurkenni mjög vel að það hefur pirrað mig í langan tíma hve þetta hefur tekið mikinn tíma af störfum þingsins og mikinn tíma af störfum, að ég held, menntmn. Það er ótrúlegt að hlusta á þetta. Ég sat í forsetastól áðan og hlustaði á hverja einustu ræðu. Menn tala um að ótrúlega hættulegt sé að fá högg í höfuðið, að ótrúlega vont sé að fá högg í höfuðið o.s.frv. (Gripið fram í: Það er það.) Allt eru þetta staðreyndir sem við þekkjum.

Menn eru að tíunda hér ýmiss konar íþróttameiðsl sem þeir hafa orðið fyrir í gegnum tíðina. Við eigum öll einhverja sögu um þetta. Við höfum dottið á reiðhjólum og við höfum verið í íþróttum, (Gripið fram í.) tognað o.s.frv. En við erum að teygja umræðuna með þessu.

Ég ber afar mikla virðingu fyrir þeim ræðum sem hv. þm. Katrín Fjeldsted læknir hefur flutt. Hún hefur flutt þær af mikilli innlifun. Hún hefur líka sýnt fram á að hún vilji gjarnan ná einhverri niðurstöðu í þetta mál. Hún lagði fram brtt. þar að lútandi. Ég ber, eins og ég segi, mikla virðingu fyrir þeim ræðum hv. þm. En svo vill til að ég var í upphafi einn af flutningsmönnum tillögunnar um að lögleiða hnefaleika á Íslandi. Ég neitaði hins vegar á síðasta þingi að skrifa upp á þá tillögu fyrst og fremst vegna þess að mér fannst allt of stutt liðið frá því að við kláruðum það mál, þ.e. það fór í gegnum alla umræðuna og við felldum það og það pirraði mig, m.a. vegna þess að mér fannst sjálfum að ég væri með býsna góð mál inni í menntmn. sem ég hefði gjarnan viljað að hefðu notið þess að fá jafnmikla umræðu og t.d. þetta mál.

Hins vegar fellst ég á rök ÍSÍ-manna og fleiri um að við eigum ekki að banna box á Íslandi, þ.e. ólympíska hnefaleika, þar sem þetta er viðurkennd íþróttagrein á ólympíuleikum. Menn hafa mikið talað um að vel geti verið að reglur muni breytast í framtíðinni og finnst mér hið minnsta mál fyrir okkur að breyta þeim reglum í takt við þær reglur sem settar verða á Ólympíuleikum í framtíðinni. Ég ætla því að greiða þessu frv. atkvæði mitt.