Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 18:24:38 (3948)

2002-02-04 18:24:38# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[18:24]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. byrjaði að ræða um það að hann gætti hagsmuna launafólks. Ég sagði að hann gætti hagsmuna BSRB, að viðhalda fjölda launamanna í því félagi af því að það fær skatt frá þeim.

Varðandi kennisetningar þá er það sem fyrst og fremst vakir fyrir mér frelsi einstaklingsins til þess að kaupa áfengi þar sem hann vill. Það er frelsið, sem ég held að sé númer eitt, tvö og þrjú, að meðan það rekst ekki á aðrar takmarkanir sem eru nauðsynlegar þá eigi að gæta að frelsi einstaklingsins. Ég skil ekki af hverju ríkið þarf að vera að sinna þessari starfsemi.

Varðandi það hvort verð á áfengi lækki þá er þekkt að samkeppni lækkar yfirleitt verð á vörum. Hafi menn ekki trú á því þá ættu þeir að koma á ríkiseinkasölu á matvörum og sjá hvernig það kæmi út eða bensíni eða einhverri annarri vöru. Það er trú flestra að samkeppni lækki vöruverð, bæti þjónustuna og auki gæðin enn fremur. Það er samkeppnin sem veldur því að menn neyðast til að gera betur en þeir sem þeir eru að keppa við.