Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 18:26:03 (3949)

2002-02-04 18:26:03# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[18:26]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta grunaði mig. Þetta snýst allt um trú manna. Veit hv. þm. Pétur H. Blöndal hver álagningarprósenta ÁTVR er í sölu? Gerir hann sér grein fyrir því? Veit hann það? Gefur hann ekkert fyrir stærðarhagkvæmni í verslun? Gerir hann sér grein fyrir því hver er stærsti kaupandi að áfengi í heiminum og getur af þeim sökum í krafti stærðarhagkvæmni boðið upp á lægst verð og hagstæðast? Það er sænska ríkið, System Bolaget í Svíþjóð. Eins er því farið hér. ÁTVR er mjög stór kaupandi og í krafti stærðarhagkvæmni er unnt að bjóða upp á lægra verð en gerist annars staðar, lægri álagningarprósentu.

Hitt er allt önnur saga, að verð á áfengi er mjög hátt hér vegna áfengisgjalds, vegna þess að áfengi er mikilvægur skattstofn. Það veldur því að verðlagið er hátt. En staðreyndin er sú að í gegnum ÁTVR tekst að halda álagningarprósentunni mjög lágri vegna stærðarhagkvæmninnar og einnig tryggir ÁTVR meira val á tegundum en ætla mætti að sérverslanir gætu. Stærstu verslanir ÁTVR í Reykjavík bjóða 2.300 tegundir og ég sæi aðrar verslanir, sérverslanir, gera slíkt hið sama.

Hv. þm. verður því að sýna okkur fram á eitthvað annað en einlæga trú sína. Það kemur mér ekkert á óvart að heyra trúarjátningar hv. þm. Péturs H. Blöndals en hann verður að færa einhver rök fyrir máli sínu.