Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 18:28:12 (3950)

2002-02-04 18:28:12# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[18:28]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta var afskaplega merkileg ræða. Hv. þm. setur út á að ég hafi trú. Ég er á Alþingi af því að ég hef sannfæringu og trú. (ÖJ: Hver er álagningarprósentan?) Ég er á Alþingi vegna þess að ég hef þá trú að við eigum að gæta að frelsi einstaklingsins og samkeppni.

Það er ekkert skrýtið þó að mig og hv. þm. greini á vegna þess að við höfum mismunandi sannfæringu. Ég ber virðingu fyrir hans sannfæringu og geri þá kröfu að hann beri virðingu fyrir minni sannfæringu þó að hún sé önnur.

Varðandi stærðarhagkvæmnina þá getum við með nákvæmlega sömu rökum komið á ríkismatvöruverslun á Íslandi. Við getum komið á verslun með alla hluti þjóðfélagsins með sömu rökum. Við mundum örugglega hafa lága álagningarprósentu.

En innkaupsverðið, þar er engin samkeppni. Ég er nefnilega sannfærður um að ef samkeppni kæmist á í sölu á áfengi þá færu menn að lækka innkaupsverðið til Íslands. Það er enginn áhugi á því neins staðar í dag vegna þess að það er allt saman fyrir fram ákveðið. Þetta er einmitt málið, samkeppnin lækkar innkaupsverð líka, ekki bara álagningu. Það er allt í lagi að hafa góða og háa álagningu ef innkaupsverðið er nógu lágt og endanlegt verð er lágt.

Svo vil ég benda hv. þm. á að hann segir mjög oft ,,staðreyndin er sú``. Af hverju þarf hv. þm. alltaf að vera að tönnlast á því að ,,staðreyndin sé sú``. (ÖJ: Af hverju kemurðu ekki með neinar staðreyndir, bara trú?)