Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 18:47:02 (3959)

2002-02-04 18:47:02# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[18:47]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki trú á því að þjónusta lítilla verslana í smárri byggð einhvers staðar á landsbyggðinni geti orðið sambærileg við það sem ÁTVR veitir í sínum stóru verslunum. Ég á heldur ekki von á því að fjölbreytnin í verslunum, jafnvel hér á þessu svæði, verði sambærileg við framboðið í verslunum ÁTVR. Ég sé fyrir mér sérverslanir kannski með spönsk vín eða sérverslanir með frönsk vín. Ég sé líka fyrir mér matvöruverslanir sem eru kannski með eina, tvær, þrjár, fjórar tegundir viðskiptavinunum til þæginda.

Þó að ég sé ekki frjálshyggjumanneskja og kyngi ekki þeim stimpli er ég samt þeirrar skoðunar að ríkisrekið kerfi verði að þola aðhald. Og ef þessi breyting verður ekki til hagsbóta, ef verðið verður hærra, verslar fólk bara ekki þar, og þá hefur hið ríkisrekna kerfi sigrað. En ég hef ekki trú á að svo muni fara.