Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 19:09:37 (3966)

2002-02-04 19:09:37# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[19:09]

Mörður Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki haldið ræður mínar hér sérstaklega til að gera grein fyrir því hvernig breyta mætti ÁTVR eða auka verslun um landið. Ég hygg samt að það sé fjmrn. og yfirstjórn ÁTVR sem hefur neitað Þórshafnarbúum, Raufarhafnarmönnum og þeim fleirum sem nú eru áfengislausir --- ég tók ekki eftir upptalningunni um þetta. Ég hins vegar fagna því framlagi hv. þm. Halldórs Blöndals til byggðamála að selja landsbyggðinni meira brennivín.

Aðalmálið er þetta: Þegar menn leggja áherslu á að dreifa áfengi eða öðrum fíkniefnum með öðrum hætti en nú er, þá verða þeir að gera grein fyrir hinum þáttum málsins. Þeir verða að gera grein fyrir því hvort áfengisneysla eykst eða ekki, hvort meiri hætta er á alkóhólisma eða ekki og þeir verða að gera grein fyrir því hvernig þeir ætla einkaaðilum að selja vöru sem ekki má auglýsa og ekki kynna.