Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 21:18:43 (3978)

2002-02-04 21:18:43# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., HBl
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[21:18]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hafði ekki búist við því fyrir fram að sjá ástæðu til að taka þátt í þessari umræðu en hér hefur margt komið fram sem kannski er ástæða til að skeggræða ofurlítið og velta fyrir sér.

Í fyrsta lagi vil ég segja að ég er ekki undrandi á því, þótt hv. 2. þm. Vestf., Karl V. Matthíasson, hafi áhyggjur af því, að of margir Íslendingar kunni ekki með vín að fara. Hann þekkir það auðvitað sem prestur hvaða afleiðingar of mikil neysla áfengis, eins og annarra fíkniefna eða hvað við köllum það, getur haft á einstaklinga og heimili. Það er engin ástæða til annars en að taka undir með honum í þeim efnum. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að reyna með öllum hætti að draga úr því að menn ánetjist áfengisbölinu. Hann vék að ýmsum atriðum í því sambandi en það var eftirtektarvert í málflutningi hans að hann lagði líka áherslu á, eins og ég skildi hv. þm., að engum dytti í hug að segja að banna ætti alla áfengisdrykkju. Ég tók svo eftir að hann hefði komist svo að orði. Hann viðurkennir þar með að áfengisdrykkja, án þess að það sé skilgreint af hans hálfu, sé snar þáttur í þjóðfélagi okkar, menningararfi okkar, siðvenjum okkar og siðum, og það sé erfitt að komast hjá að viðurkenna.

Ég hygg að það sé líka eftirtektarvert sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði, að með bættum samgöngum, eins og ég skildi hv. þm., sé ekki hægt að tala um það með sama hætti og áður að fjarlægð frá vínbúð sé afgerandi þáttur um neyslu áfengra drykkja. Samhengi milli aðgengis og neyslu sé annað nú en áður, hygg ég að hv. þm. hafi sagt. Ég hygg að báðir þessir hv. þm. hafi þar hitt naglann á höfuðið. Við stöndum frammi fyrir því að hvar sem við erum stödd á landinu þá er neytt áfengra drykkja. Við stöndum líka frammi fyrir því að það er mjög víða sem við getum fengið áfenga drykki, ef okkur býður svo við að horfa. Í þeim efnum er ekki nauðsynlegt að hafa áfengisútsölu ríkisins á þeim stað, eins og reynt var að gefa í skyn hér af einum hv. þm. áður. Þó ekki sé áfengisútsala á staðnum þá er í flestum tilvikum veitingahús á staðnum eða í næsta nágrenni þar sem menn geta hist, fengið sér bjór og aðra áfenga drykki og þurfa þess vegna ekki að fara um langan veg.

Einn hv. þm. sagði áðan eitthvað á þá leið að ef ekki væri áfengisútsala á staðnum gætu menn hugsað sig um á meðan þeir væru að ná í drykkinn, kannski 100 kílómetra fjarlægð. Þetta er ekki svona. Barinn er á flestum þéttbýlisstöðum. Ef menn eru ofurseldir áfenginu geta þeir skotist inn á barinn mjög víða. (Gripið fram í.) Ég hygg því að ekki sé ástæða til þess að reyna að setja málið þannig upp að sumir staðir hér á landi séu svo fjarri eðlilegu lífi þjóðarinnar að búast megi við að þar sé ekki hægt að ná í áfengi. Þannig er það ekki.

Þá skulum við koma að öðru atriði sem er mjög athyglisvert við þessa umræðu, að því nær hver einasti alþingismaður sem hefur tekið til máls hefur lagt upp úr því að Áfengisverslun ríkisins sé mjög góð verslun og veiti góða og batnandi þjónustu. Með öðrum orðum: Auðveldara aðgengi að áfengi en áður. Þetta hefur verið sagt í jákvæðum tón og sem hrósyrði við eiganda þessarar búðar, ríkið, að það skuli sjá til þess að þjónustan fari batnandi. Jafnframt hefur verið varað við því að ef Áfengisverslun ríkisins sé ekki ein um hituna sé við því að búast að úrval af áfengistegundum verði minna á hverjum stað. Sagt var að það væru a.m.k. 80 tegundir þar sem minnst er og mér skilst, eftir þessar umræður, að óvíða á hnettinum sé meira úrval af áfengum drykkjum og í þessum áfengisverslunum Áfengisverslunar ríkisins. Gott og vel.

Þetta sýnir okkur auðvitað að hér er ekki sá andi yfir vötnum að menn séu að hvetja til að með stirðlegum verslunarháttum verði reynt að draga úr áfengisneyslu. Þvert á móti hefur verið lögð áhersla á að Áfengisverslun ríkisins veiti mjög góða þjónustu og ýmsir þingmenn hafa látið í ljós ótta um að ef þessi viðskipti fari úr höndum ríkisins, mætti við því búast að álagning mundi hækka, með öðrum orðum að áfengið yrði dýrara.

Nú er það auðvitað nýtt í þessum sölum að þingmenn séu almennt sammála um að það sé böl fyrir þjóðina að áfengi sé dýrt. Auðvitað er það svo. Þess vegna finnst mér þessi tónn í umræðunni mjög athyglisverður. Hið sama finnst mér um það sjónarmið sem fram kom að undan því sé ástæða til að kvarta að kannski verði ekki til nema tvær eða þrjár tegundir af rauðvíni í einhverju þorpinu. Þetta þótti mér líka athyglisvert.

Svo ég beini orðum mínum til hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur, 9. þm. Reykn., virðist ekki vera svo mikill skoðanamunur milli okkar, þó hv. þm. hafi mjög beint orðum sínum til okkar sjálfstæðismanna og varað þjóðina við því hvað við værum vondir, í orðum hv. þm. um að hún væri samt mjög ánægð yfir því hvað Áfengisverslun ríkisins veitti góða þjónustu og hve vel hún kæmi til móts við viðskiptavini sína. Að því leyti eru sambærilegir þingmenn í Sjálfstfl. og í Samfylkingunni að þeir gera sér grein fyrir því að Áfengisverslun ríkisins leysir úr brýnni þörf í hugum margra Íslendinga.

Þá er ýmislegt fleira sem mér þykir athyglisvert í umræðunni. Það er verið að tala um að kaupmenn vilji fá gróðann af þessum miklu viðskiptum, vilji græða á verslun sinni. Auðvitað vilja kaupmenn eins og aðrir græða á viðskiptum sínum. Það er ekki nema eðlilegt. Meira að segja ríkið sjálft vill græða á viðskiptum sínum. Einn hv. ræðumaður tíundaði hve mikill hagnaður ríkisins væri af áfengissölunni vegna þeirra sérstöku skatta sem á áfengi eru lagðir. Oftar en ekki hefur Áfengisverslun ríkisins verið notuð til þess að brúa bilið til þess að fjárlög nái saman. Mig minnir að hann hafi sagt að tekjur af áfengisversluninni væru milli 16 og 17 milljarðar. (Gripið fram í: Veltan.) Var það veltan? Veltan á áfenginu væri milli 16 og 17 milljarðar.

Ég er ekki flutningsmaður að þessu frv. en væntanlega verð ég þá að segja að ágreiningur flutningsmanna og þeirra sem hér hafa tekið til máls sé um hvort hagkvæmara sé og ódýrara að ríkið reki verslunina eða að hún sé í höndum verslunarfyrirtækja og einstaklinga. Mér kom ekki á óvart að heyra að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs telji að ríkið geti staðið þannig að verslunarrekstri að hann sé ódýrari en í höndum einstaklinga. Þetta er auðvitað sá skoðanamunur sem er milli sjálfstæðismanna og Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að við viljum takmarka ríkisafskipti eftir því sem við getum og viljum ekki að samkeppnisrekstur eða verslunarrekstur sé í höndum ríkisins, nema að mjög litlu leyti a.m.k. Á hinn bóginn hefur það oft komið fram að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs vilja að ríkið gíni yfir miklu stærri hlut í samkeppninni en við sjálfstæðismenn viljum.

Þessi skoðanamunur er ekki bundinn við þetta frv. Þetta varðar Landssímann, svo ég taki mál sem nú er ofarlega á baugi. Svo ég taki gamalt mál þá er þetta sama deila og ég átti við ýmsa af þeim sem hér hafa tekið til máls um hvort rétt væri að selja Skipaútgerð ríkisins á sínum tíma og leggja hana niður. Það er gamalt mál af sama toga og ekkert skrítið að sú umræða komi upp í sambandi við það hvernig við eigum að koma áfengum drykkjum á búðarborðið.

[21:30]

En nú skulum við velta öðru fyrir okkur. Hvaða kaupmenn eru það sem græða á þeirri skipan sem nú er? Hvar situr Bakkus gamli við búðarborðið? Hann situr við búðarborð uppi í Kringlu. Hann er við búðarborðið í Smáralindinni. Hann er við búðarborðið í gömlu Hagkaupsbúðinni á Seltjarnarnesi. En hann er ekki við búðarborðið hjá ýmsum kaupmönnum á horninu og ýmsum smærri verslunarmönnum sem auðvitað hefur þær afleiðingar --- ef við viljum hugsa málið praktískt og eins og við hugsum sjálf --- að ef við þurfum á því að halda að skjótast í Ríkið verslum við auðvitað við þá matvörubúð sem er á staðnum okkur til hægðarauka þegar svo stendur á, erum kannski bara að ná í eina flösku af rauðvíni eða nokkra bjóra.

Eins og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er starfrækt í dag kemur hún vissum verslunum vissulega til góða. Því miður getum við ekki sagt að það sé bundið við ákveðna tegund af verslun eða verslunarsamsteypu eða verslunarmiðstöð. Berum t.d. saman Áfengisverslun ríkisins eins og hún er rekin vestur á Seltjarnarnesi og Glerártorgið á Akureyri. Á Glerártorginu á Akureyri er ekkert útibú frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sem mundi annars styrkja þá starfsemi í samkeppni Glerártorgs við Bónus og Hagkaup með sama hætti og áfengisverslunin úti á Nesi styrkir þá í samkeppni við matvöruverslunina á Melunum. Þetta er auðvitað allt saman augljóst. Við erum þannig líka að tala með vissum hætti um ákveðið réttlætismál í sambandi við viðskiptahætti okkar.

Þá skulum við enn velta einu fyrir okkur --- og ég heyrði að ýmsir voru að víkja óbeint að því sem ég sagði hér áður --- hvort eðlilegt sé að standa að sölu á áfengi samhliða öðrum atvinnurekstri, annarri verslun. Ég man ekki betur en að það sé barnafataverslun í Ólafsvík sem hefur með sölu áfengis að gera, og presturinn í Grundarfirði sagði mér að það væri blómabúðin á þeim stað.

Nú má auðvitað spyrja sjálfan sig að því hvernig á því standi að blómabúðin á Ólafsfirði má ekki reka áfengisverslun hjá sér alveg hreint eins og í Grundarfirði. Og við hljótum líka að velta því fyrir okkur hvernig stendur á því að einhver smáverslun á Raufarhöfn má ekki vera með nokkra bjóra til sölu eins og barnafatabúðin í Ólafsvík og þar fram eftir götum. Að sumu leyti eru því þessi viðskipti í höndum verslunareigenda sem auðvitað hjálpar þeim að standa undir þeim kostnaði sem óhjákvæmilega fylgir því að hafa opna verslun og standa undir öllum þeim daglega kostnaði sem slíku fylgir. Ég held að óhjákvæmilegt sé að leggja málið upp með þessum hætti.

Ég held að það sé líka nauðsynlegt fyrir okkur ef við viljum tala um þetta í jafnbreiðu samhengi og hér hefur verið gert, þar sem lögð var mjög þung og rík áhersla á það að þetta fyrirkomulag sem við höfum núna, ÁTVR, sé sérstaklega gott fyrir dreifbýlið af því að verslanir Áfengisverslunar ríkisins --- tóbakið er víst farið þarna út, ég fylgist svona illa með --- taki ekki flutningskostnaðinn, þetta séu einu búðirnar á landinu þar sem menn geti keypt vöruna við sama verði. Mig minnti að bensínið væri á svipuðu verði svona hér um bil hvar sem maður er á landinu en ekki er það kannski alveg. En þetta er bara ekki rétt. Sumir þurfa að aka 100 km, jafnvel 150 km, til að ná sér í áfengi. Það er heldur en ekki flutningskostnaður. (KVM: Það er eins gott að þú kaupir mikið.) Það þarf ekki að kaupa mikið, hv. þm. Karl V. Matthíasson, vegna þess að menn reyna að gera sér annað til erindis í leiðinni, t.d. að eiga viðskipti, kaupa inn til heimilisins í leiðinni þar sem þeir skjótast í áfengisverslunina. Og það var þetta sem ég var að reyna að segja áðan, það getur skipt máli á sumum stöðum að hægt sé að breikka þann grundvöll sem er undir verslunarrekstri á staðnum.

Við höfum séð í sambandi við rekstur á sparisjóðum að það hefur hjálpað til að þeir hafa tekið við afgreiðslu Póstsins. Ég hygg að svo sé líka um verslanir á stöku stað, að þær hafi tekið að sér þá þjónustu sem Pósturinn hefur haft með höndum. Við höfum líka tekið eftir því að sums staðar hefur það létt undir með verslunareigendum að vera t.d. umboðsmenn fyrir tryggingafélög, selja happdrættismiða eða eitthvað þvílíkt, jafnvel vera með þessi ólukkans spil, peningaspil, sem ég veit að hv. 13. þm. Reykv. hefur andúð á, þó að hann hafi ekki vikið að því í ræðu sinni í dag. Við komum þar líka að því að menn eru með vissum hætti að reyna að styðja starfsemina.

Það sem ég leyfði mér að segja áðan var að mér varð hugsað til Ólafsvíkur og mér varð hugsað til Grundarfjarðar, um þær litlu verslanir sem þar eru og styðjast við það að geta veitt þessa þjónustu í staðinn fyrir að fá sérverslun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Ég spurði sjálfan mig að því hvort ekki væri eðlilegt að slík tilhögun yrði á öðrum stöðum líka. Einnig vegna þess að ég heyrði nokkra hv. þm. hafa orð á því að áfengisútsölur yrðu helst að vera á öllum þéttbýlisstöðum á landinu. Það var ekki ég sem sagði það, það voru ekki sjálfstæðismenn sem sögðu það áðan --- það voru þingmenn úr öðrum flokkum sem sögðu að áfengisútsala yrði að vera á nær öllum stöðum á landinu.

Ég tók eftir því að hv. þm. Karl V. Matthíasson, 2. þm. Vestf., var ekki þeirrar skoðunar og gladdist í málflutningi sínum yfir því að það skyldu þó enn vera til staðir á Íslandi þar sem ekki væru áfengisútsölur. Það kom að vísu ekki fram í máli hans hvort til væru staðir þar sem hvorki væri áfengisútsala né bar. Ég hygg að það sé til og get glatt hann með því að slíkir staðir eru til, kannski guði sé lof.

Ég taldi nauðsynlegt, herra forseti, aðeins að koma þessum sjónarmiðum að að nær hver einasti maður sem hér hefur tekið til máls er þeirrar skoðunar að það megi undir engum kringumstæðum grípa til ráða sem dragi úr því að sem fjölbreyttast val af áfengi yrði á boðstólum, og margir hv. þm. vöruðu mjög við því að hætta gæti orðið á því að áfengi hækkaði í verði vegna meiri flutningskostnaðar. Ég heyri því ekki betur en að skoðanir alþingismanna séu svipaðar nema að því leyti að menn greinir á um það hver skuli vera rekstraraðilinn og bera ábyrgð á sölu áfengra drykkja.