Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 21:38:39 (3979)

2002-02-04 21:38:39# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[21:38]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að við erum því mörg fylgjandi, og ég er það mjög eindregið, að ÁTVR veiti sem allra besta þjónustu og hafi á boðstólum sem allra mest úrval af víni.

Ég hélt því líka fram að stærðarhagkvæmnin yrði til þess að unnt væri að hafa álagningu á áfengið lægri en hún yrði hjá einkaaðilum, og hv. þm. má ekki rugla því saman við þá verðstýringu sem opinberir aðilar hafa á áfenginu í gegnum áfengisgjaldið. Það er allt annar handleggur.

Þessi álagning sem ÁTVR setur á vínið fer til þess að bæta þjónustuna, þar á meðal við landsbyggðina. Og mér nægir ekki að verslun á Raufarhöfn hafi fáeina bjóra á boðstólum, eins og hv. þm. Halldór Blöndal komst að orði. Mér finnst að á slíkum stöðum eins og Raufarhöfn og annars staðar í þéttbýliskjörnum á landinu eigi að bjóða upp á sambærilega þjónustu og hér á þéttbýlissvæðinu.

Það sem hv. þm. ruglar saman hins vegar er ástæðan fyrir því --- eða hann virðist ekki gera sér grein fyrir um hvað þetta mál snýst í meginatriðum. Það snýst í rauninni aðeins að hluta til um aðgengi að áfengi. Meginmálið er hvort virkja á auglýsingamennsku og markaðshyggju við að koma því á framfæri. Um það snýst þetta mál fyrst og fremst og það er í þessu sem forvarnaþátturinn liggur, og það er þess vegna sem við höldum og viljum mörg hver halda smásöluverslun á áfengi á hendi ÁTVR.