Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 21:41:24 (3981)

2002-02-04 21:41:24# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[21:41]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að svara þessu. Ég er búinn að reyna að skýra það út að ég tel æskilegt að kaupendur hafi gott aðgengi að áfengisverslunum. Ég er því fylgjandi og ég vil hafa þar mikið úrval á boðstólum, það er mín skoðun. Ég er hins vegar andvígur því að setja áfengi inn í matvöruverslanir, inn í sjoppur og bensínsölur, eins og sumir flutningsmenn þessa frv. hafa talað fyrir, og ég er því andvígur að virkja markaðskraftana og auglýsingamennsku til að selja áfengi. Það hefur sýnt sig í skýrslum sem gerðar hafa verið að það er samhengi á milli vörudreifingarmátans og neyslustigsins, og þótt ég sé því fylgjandi að áfengi sé á boðstólum og í góðu úrvali er ég því andvígur að virkja auglýsingamennsku til að koma því á framfæri.

Ef hv. þm. Halldór Blöndal skilur þetta ekki stend ég ráðþrota gagnvart honum. Ég hygg þó að flestir þeirra sem velta þessum málum fyrir sér skilji hvað hér er verið að fara.