Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 21:44:05 (3983)

2002-02-04 21:44:05# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[21:44]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Varðandi aðgengi og útsölustaði áfengis, eins og þeir tíðkast í dag hjá ÁTVR --- þegar smásalan fer fram í verslunum öðrum en hreinum útsölustöðum ÁTVR er það þannig að inni í þeirri verslun, hvort sem það er barnafataverslun, blómabúð eða verslun með áhöld og vinnufatnað, er afmarkað svæði sem er notað undir sölu áfengis og þar er þá sérstakur afgreiðslumaður sem selur áfengið. Þetta er svolítið útibú inni í annarri verslun. Þetta er gert til hagræðingar þar sem ekki er talinn rekstrargrundvöllur fyrir algjörri sérverslun ÁTVR. Það er því mikill munur á þessu fyrirkomulagi sem er í dag og hinu sem lagt er til í frv. þar sem hver einasta matvöruverslun, fái hún leyfi til þess hjá sveitarstjórn, getur haft áfengi í hillunum.

Ég vil biðja hv. þm. að svara því hvernig hann sér fyrir sér að þjónusta til fólks sem býr úti í hinum dreifðu byggðum muni aukast ef frv. verður að lögum.