Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 21:45:49 (3984)

2002-02-04 21:45:49# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[21:45]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að játa að ég hef ekki hugsað þetta mál ofan í kjölinn eins og ýmsir aðrir þingmenn sem hér hafa talað. Það eina sem ég hef vakið athygli á er að ýmsir staðir hér á landi búa við að þar er ekki áfengisútsala. Ég varpaði því fram hvort ekki væri rétt að fara sömu leið og farin er sums staðar á Snæfellsnesi, að láta verslunareigendur sem eru í öðrum viðskiptum en þessum, taka að sér þessa þjónustu. Mér finnst ekkert að því. Ég er hins vegar ánægður yfir því hversu almennur vilji er hér fyrir því að reyna að bæta úr þessu ástandi úti á landi, þó ég verði um leið að segja að ég leggi ekki jafnmikið upp úr því og ýmsir aðrir þingmenn hér að það séu 80 víntegundir í versluninni þar sem ég á viðskipti. Ég hef ekki næga þekkingu til að kunna að notfæra mér slíka fjölbreytni og vöruúrval í áfengum drykkjum.