Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 21:58:20 (3988)

2002-02-04 21:58:20# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[21:58]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Að vísu er það nú ekki mitt að leiðrétta hv. þm. Karl V. Matthíasson, hv. 2. þm. Vestf., þegar hann fer rangt með efni þessa frv. Ég er sammála honum um að nær væri að einhver af flutningsmönnum væri hér staddur og gerði það.

Í frv. er hins vegar ekki talað um að það fari eftir duttlungum verslunareigenda hvort þeir megi selja vín eða ekki. Það stendur hér að það verði að uppfylla eftirtalin skilyrði, þá er gefinn kostur á tveim skilyrðum. Hið fyrra er:

,,Rekstraraðili verslunar hefur fengið leyfi sveitarstjórnar til reksturs á áfengisútsölu sem ætlað er að vera sérverslun með áfengi.``

Í öðru lagi: ,,Rekstraraðili verslunar, sem fyrst og fremst verslar með aðrar vörur, hefur fengið leyfi sveitarstjórnar til reksturs áfengisútsölu samhliða annarri starfsemi sinni,`` o.s.frv.

Þannig er skýrt tekið fram að það skuli vera í höndum sveitarstjórnarinnar að ákveða hvort áfengi verði selt í viðkomandi verslun. Hvernig getur hv. þm. sagt og verið viss um það að sveitarstjórnin í Grundarfirði muni gefa fimm verslunum leyfi til að selja þar vín? Ég geri ráð fyrir að hv. þm. viti hvað hann er að segja og hafi kynnt sér þetta. Kannski að Samfylkingin hafi meiri hluta í Grundarfirði og þetta sé þá allt saman í höfn? Ég segi nú bara að ég þakka guði fyrir að ekki skuli vera fleiri verslanir í Grundarfirði. Það yrði meiri áfengisflaumurinn sem þar rynni ef svo væri, ef sveitarstjórnin segði bara hverjum sem er að opna útsölu. En það er ekki þannig.

Í öðru lagi vil ég segja varðandi það er hv. þm. sagði, að það að selja vín virtist vera einkunnarorð þessa frv: Þeir sem til máls hafa tekið hafa flestir verið sammála um að fjölga þurfi áfengisútsölum.