Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 22:02:05 (3990)

2002-02-04 22:02:05# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[22:02]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvað fyrir hv. þingmanni né þingmönnum vakir. Það hefur komið fram hér hjá a.m.k. sumum þingmönnum Vinstri grænna að þeim er umhugað um að fjölga vínbúðum um allt land þannig að sem mest úrval sé af áfengi í þessum vínbúðum og helst á öllum þéttbýlisstöðum, eins og ég skildi það. Nú segir þessi hv. þm. að það sé verra að sveitarstjórnirnar ákveði hvort áfengi sé selt á viðkomandi stað en ríkið.

Af hverju má það ekki vera í höndum sveitarstjórnarinnar alveg eins og fjmrh. eða forstjóra Áfengisverslunar ríkisins hvort selt er áfengi á Hellissandi eða ekki? Gamall og góður félagi okkar, fyrrverandi þingmaður, býr þar. Af hverju má ekki sveitarstjórnin þar ákveða hvort þar sé áfengisútsala alveg hreint eins og að í Ólafsvík og Grundarfirði hefur ríkið ákveðið að sé áfengisútsala? Mér finnst þetta vera svolítið skrýtin umræða.

En aðalatriðið er að þingmenn virðast sammála um að rétt sé að áfengisútsölur séu í sumum sjávarplássum, Grundarfirði og Ólafsvík, en hræddir við að leyfa t.d. sveitarstjórninni á Raufarhöfn eða sveitarstjórninni í Stöðvarfirði að ákveða að þar megi líka selja vín. Þetta finnst mér athyglisvert og þetta finnst mér órökrétt, án þess að ég hafi neitt gert það endanlega upp við mig hvaða afstöðu ég hafi til þessa sérstaka frv. sem hér liggur fyrir.