Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 22:03:58 (3991)

2002-02-04 22:03:58# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[22:03]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég er að benda á er að menn eru að tala um að fá að selja vín og hafa meira frelsi í áfengissölu. Í grundvallaratriðum er ég að segja það, herra forseti, að aukið aðgengi að áfengi eykur neysluna og aukin neysla er neikvæð. Það er mín skoðun og ég segi hana hér. Aukið framboð áfengis eykur líka aðgengi barna og unglinga að áfengi og það er neikvætt. Það er mín skoðun.

Ég er ekki að segja að ég sé sjálfur hlynntur því, herra forseti, að fimm áfengisútsölur séu í Grundarfirði. Ég er alls ekki að segja það. Ég er hins vegar að benda á að ef menn tala um frelsi í viðskiptum og frelsi með vöru og að allir eigi að hafa góðan og frjálsan aðgang að þessari vöru, af hverju koma þá ekki flutningsmenn frv. bara með tillögu um það í þessu frv. að hver einasta verslun í landinu geti selt vín? Og hvað er þá að því? (Gripið fram í.) Þá hafa allir frjálsan aðgang og allir eru frjálsir og allir geta verið glaðir og allir komast í vín sem þurfa, af því að það er svo nauðsynlegt að drekka vín.