Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 22:23:16 (3994)

2002-02-04 22:23:16# 127. lþ. 68.12 fundur 266. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[22:23]

Flm. (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls um þáltill. sem ég flyt ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar. Ég þakka fyrir þá ágætu umfjöllun sem þar hefur verið og stuðning. Jafnframt verð ég að segja alveg eins og er að það kemur mér ekki á óvart að stjórnarþingmenn skuli ekki láta sjá sig. Það finnst mér líka mjög táknrænt. Í rauninni skil ég þá mjög vel, að menn vilji ekkert ræða um hækkun þungaskatts í tíð núverandi ríkisstjórnarflokka. Ég hef farið yfir það áður og gerði það í fyrri ræðu minni hvernig áhrif sú hækkun hefur á verri veg fyrir samkeppnishæfni fyrirtækja á landsbyggðinni og landsbyggðarfólk í hærra vöruverði.

Herra forseti. Ég greip með mér smágrein sem Ásgeir Magnússon, forstöðumaður Skrifstofu atvinnulífsins á Akureyri, ritaði í blað Samtaka iðnaðarins og ég ætla að vitna aðeins í það, með leyfi forseta:

,,Það er kunnara en frá þurfi að segja að mörg framleiðslufyrirtæki landsbyggðarinnar sérstaklega iðnfyrirtæki hafa átt í vök að verjast á undanförnum árum og hefur þar margt komið til. Einn af stóru þáttunum í rekstri margra þeirra er flutningskostnaður. Fyrir þau sem vinna á innanlandsmarkaði er flutningur á stærsta markaðssvæði landsins verulega íþyngjandi, en hefur ef til vill verið veginn upp með öðrum kostum við staðsetningu fyrirtækjanna svo sem traustu og góðu vinnuafli og ódýrari lóðum og húsnæði.``

Síðan er rætt um þá breytingu sem Eimskipafélag Íslands, eina fyrirtækið sem sinnir strandflutningum enn á Íslandi, gerði á sl. hausti og síðan með áframhaldandi tilvitnun í þessa grein, segir Ásgeir Magnússon, með leyfi forseta:

,,Auðvitað hefur gjald þetta mjög mismunandi áhrif í rekstri fyrirtækja allt eftir eðli starfseminnar, allt frá því að hafa lítil sem engin áhrif upp í að ráða úrslitum um það hvar fyrirtækið verður staðsett í framtíðinni, og jafnvel í einstaka tilfellum að ráða því hvort fyrirtækið verður starfrækt áfram.``

Síðan eru tekin dæmi af viðbrögðum forráðamanna nokkurra fyrirtækja á Norðurlandi sem rætt var við vegna þessara breytinga:

,,Iðnfyrirtæki sem flytur inn allt hráefni (þungavöru), en selur sína þjónustu að talsverðu leyti á höfuðborgarsvæðinu. Áætlaður viðbótarkostnaður 8--10 milljónir á ári. Þessi kostnaður er heldur hærri en áætlaður hagnaður fyrirtækisins á árinu 2001.

Iðnfyrirtæki sem flytur inn allt hráefni, en selur framleiðslu sína að langmestum hluta á höfuðborgarsvæðinu. Viðbótarkostnaður vegna flutninga gæti haft þau áhrif að stór hluti starfsemi fyrirtækisins flyttist til Reykjavíkur.

Iðnfyrirtæki sem flytur stærstan hluta framleiðslu sinnar úr landi. Áætlaður kostnaðarauki 12--16 milljónir. Rúmlega allur hagnaður fyrirtækisins af starfsemi þess á Norðurlandi. Veruleg hætta á að framleiðslan flytjist úr landi.

Iðnfyrirtæki sem þarf á miklum flutningum að halda og flytur alla framleiðslu sína úr landi. Fyrirtækið mun ekki greiða þessa hækkun flutningsgjalda. Náist ekki viðunandi samningar við Eimskipafélagið verður fyrirtækinu lokað.``

Herra forseti. Ég var að vitna í grein sem Ásgeir Magnússon, forstöðumaður Skrifstofu atvinnulífsins á Akureyri, skrifaði í blað Samtaka iðnaðarins. Þau dæmi sem tekin eru af fjórum iðnfyrirtækjum segja allt sem segja þarf. Með öðrum orðum, áhrif þungaskattsbreytinganna, svo og hækkun á sjóflutningum, er að ganga af fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni dauðum. Og þessi sömu áhrif hafa stórhækkað vöruverð á landsbyggðinni. Ég kem betur að því síðar.

Herra forseti. Ekki alls fyrir löngu var stofnfundur Samtaka fyrirtækja á Norðurlandi. Þau samtök ætla að halda fund á Akureyri á fimmtudaginn kemur til að ræða þessi mál. Og er ég mjög kátur með það. Rósa Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ásprents POB, sem er í forsvari fyrir þessi samtök, sagði m.a. að horfa þyrfti til annarra Evrópulanda þar sem stjórnvöld styðja við og styrkja landsbyggðina á ýmsan hátt. Menn hljóta að bera saman rekstrarumhverfi fyrirtækja og lífskjör fólks á landsbyggðinni í Evrópu við landsbyggðina á Íslandi. Þetta er alveg hárrétt. Á þessum fundi var samþykkt að vinna að því að fá endurgreiðslu á flug-, sjó- og landflutningum til og frá höfuðborgarsvæðinu, niðurfellingu tryggingagjalds á landsbyggðinni, hækkaðan persónuafslátt fyrir íbúa landsbyggðarinnar, sem og afslátt á endurgreiðslu námslána. Sumt af þessu eru hlutir sem hafa verið ræddir en ekki komist til framkvæmda.

Það er ljóst, herra forseti, að þessi gjaldtaka er mjög neikvæð og hefur mjög neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækja á landsbyggðinni.

Samtök iðnaðarins telja að lausn verði að finnast á þessum málum og telja að það verði ekki gert nema í samvinnu stjórnvalda, flutningafyrirtækja, hagsmunasamtaka og fyrirtækja á landsbyggðinni. Stjórn samtakanna sendi kveðjur á fundinn, með þeirri ósk að viðunandi lausn fyndist á þeim vanda sem nýtt gjald vegna framhaldsflutninga, þ.e. sjóflutninganna, skapaði fyrir iðnfyrirtæki á landsbyggðinni. Ljóst væri að gjaldtaka mundi hafa neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækjanna.

Herra forseti. Það berast alls staðar óp frá forsvarsmönnum fyrirtækja á landsbyggðinni, svo og almennum landsbyggðarbúum, fólkinu, yfir vöruverði og svipuðum þáttum.

Hv. þm. Karl V. Matthíasson talaði áðan um flutningskostnaðinn og ég vil aðeins bæta við það. Fyrirtækið Flytjandi starfrækir flutningaþjónustu frá Reykjavík til 80 áfangastaða á landinu. Mundu menn virkilega trúa því að það kosti 1.752 kr. með virðisauka að flytja 30--39 kg pakka til Miðnorðurlands? Gera menn sér grein fyrir því að þetta eru 45--58 kr. á kíló? Gera menn sér grein fyrir því að ef flutt eru meira en 300 kg, þá eru þetta um 20 kr. á kíló sem þetta kostar?

Ég tók hér dæmi við fyrri umræðu, þegar ég fylgdi þessari þáltill. úr hlaði, af hveitipoka í Bónusverslun á Akureyri sem kostaði 75 kr. Þar er talið að flutningur á þeim 2 kg hveitipoka kosti um 15 kr. Það er auðvitað dæmi um það að stórflytjendur fái afslátt, en 7,50 til 10 kr. er mjög algengt gjald á flutningum á þessum leiðum.

[22:30]

Herra forseti. Ég hef hér mest fjallað um áhrif þungaskattsbreytinga ríkisstjórnarflokkanna undanfarin ár, hvernig þær íþyngja og hafa farið þráðbeint út í verðlagið. Það er ljóst að í fjárlögum fyrir árið 2000 var reiknað með 3,9 milljörðum í þungaskattstekjur. Í fjárlagafrv. þessa árs er reiknað með að þessar tekjur verði 5 milljarðar kr. Þær hafa aukist um 1,1 milljarð á þessum árum.

Svo tekið sé dæmi af akstri flutningabíls með vagn austur á land þá getur það kostað í kringum 70 þús. bara í þungaskatt. Svo tók hv. þm. Karl V. Matthíasson dæmi áðan um flutningafyrirtæki í Grundarfirði sem borgar 40 millj. kr. á ári í þungakatt. Bara sá þungaskattur sem þetta viðkomandi flutningafyrirtæki borgar í ríkissjóð getur fjármagnað framkvæmdina við Kolgrafarfjörð á 15--20 árum. Við sjáum náttúrlega að þetta er komið langt út yfir öll velsæmismörk.

Þess vegna er jöfnun flutningskostnaðar eitt brýnasta atriðið ef menn vilja ná tökum á byggðamálum. Jöfnun flutningskostnaðar snýr að vöruverði og samkeppnishæfni atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu.

Jöfnun flutningskostnaðar er til í dag, þ.e. jöfnun á sementi, olíu. Við vitum að mjólkin kostar svipað um land allt o.s.frv. Við höfum þessar jöfnunaraðgerðir og því skyldum við ekki nota þær í þessu.

Herra forseti. Það er nefnilega svo að í dag snýst þetta um samkeppnishæfni svæða, þ.e. samkeppnishæfni landsbyggðarinnar gagnvart höfuðborgarsvæðinu sem skiptir höfuðmáli. Þetta snýst um styrkleika og veikleika. Veikleikinn gagnvart landsbyggðinni er sá sem ég er hér að gera að umtalsefni, hár og mikill flutningskostnaður sem allt er að drepa. Gera menn sér grein fyrir því? Það er best að taka dæmi sem ég heyrði ekki alls fyrir löngu um. Kona vestur á fjörðum hringdi í mig og sagði mér þetta dæmi. Hún hafði hug á að kaupa stól í IKEA sem átti að kosta 3.500 kr. Sem betur fer, að eigin sögn, athugaði hún hvað mundi kosta að flytja stólinn. Áætlunin sem hún fékk frá flutningafyrirtækinu var að það mundi kosta 3.300 kr. að flytja hlutinn vestur.

Svo halda menn að við séum að ná einhverjum tökum á byggðamálum. Byggðaáætlun sem hefur verið í gildi er ekkert annað að stærstum hluta en falleg orð á pappír. Hún er friðþægingaráætlun. Ekkert hefur verið gert í þeim málum sem ég er að gera að umtalsefni, þ.e. flutningskostnaðinum.

Dæmin sem ég hef verið að taka um kostnaðinn í þessu sambandi sýna það og sanna. Það er ljótt að segja það, herra forseti, en engu að síður verður að hafa það í huga að þegar flutningskostnaðurinn er orðinn eins og hann er í verðskrám sem liggja fyrir frá þeim ýmsu aðilum sem stunda flutninga til og frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar, og þegar gjaldskráin er skoðuð spyr maður sig hvort miklar líkur séu á því að fyrirtæki taki sig til og flytji starfsemi sína --- ef miklir flutningar til og frá eru samfara þeirri starfsemi, e.t.v. til úrvinnslu úti á landi eða fullvinnslu --- hvort miklar líkur séu á því að flutningskostnaðurinn gerði það að verkum að menn væru frekar áfjáðir í það að flytja starfsemi sína út á land. Ég óttast, herra forseti, að svo sé ekki.

Ég óttast að þetta séu þættir sem skipta verulega miklu máli þegar þetta er skoðað og að menn komist að því að þrátt fyrir að geta farið í ódýrara húsnæði og fengið öruggara vinnuafl þá séu þetta neikvæðu þættirnir sem stoppi margan af hvað þetta varðar.

Dæmin sem ég hef hér tekið, bæði þau sem höfð eru eftir Ásgeiri Magnússyni á Akureyri og eins þau úr fréttum af fundi þegar samtök fyrirtækja á Norðurlandi voru stofnuð, gera það að verkum að við ættum að ganga fljótt til verks og gera breytingar hér á, gera breytingar að hætti þeirra sem láta sig byggðamál varða úti í Evrópu og nota skattkerfið til að jafna lífskjörin. Það er hægt að gera hér. Jöfnun lífskjara er að mínu mati mikilvægasta byggðamálið.

Jöfnun flutningskostnaðar er afar mikilvæg fyrir atvinnureksturinn á landsbyggðinni, að maður tali nú ekki um alla þá miklu fiskflutninga sem eiga sér stað til og frá vinnslu. Þetta er ákaflega brýnt mál.

Það er ákaflega brýnt að jafna þetta til þess að lækka vöruverð á landsbyggðinni vegna þess að það hefur komið fram að annað mesta umkvörtunarefni íbúa á landsbyggðinni er verðlag og verslunaraðstæður sem 69% þeirra íbúa sem spurðir voru í könnun Stefáns Ólafssonar lektors, voru óánægðir með, þ.e. verðlag og verslunaraðstæður.

Herra forseti. Þetta er það sem er einna brýnast í þessum málum, ásamt því að taka á og jafna lífskjör fólks í gegnum skattkerfið sem ég ætla nú ekki að ræða um hér undir þessum lið enda er tími minn búinn. En það gefst tími til þess síðar. Ég held að ef menn ætla að stöðva þá miklu flutninga sem hafa átt sér stað frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins og snúa vörn í sókn þá verði þeir að fara í ýmsar jöfnunaraðgerðir í gegnum skattkerfið.

Ég ætla að enda mál mitt að þessu sinni á því að segja: Það er í raun ekkert sanngjarnt við það að íbúi á Raufarhöfn borgi sama tekjuskatt og íbúi í Reykjavík. Íbúinn á Raufarhöfn nýtur ekki ýmiss konar þjónustu sem íbúinn á höfuðborgarsvæðinu nýtur, jafnvel frá hendi opinberra aðila. Hvers vegna skyldu menn þá ekki skoða það dæmi alvarlega annaðhvort að hækka persónuafsláttinn eða hreinlega að lækka tekjuskattsprósentuna hjá íbúum á landsbyggðinni? Þetta er m.a. gert í Norður-Noregi.