Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 22:38:27 (3995)

2002-02-04 22:38:27# 127. lþ. 68.12 fundur 266. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[22:38]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þessa till. til þál. að öðru leyti en því að lýsa stuðningi við hana fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Við teljum að æskilegt væri að gera þá könnun sem hér er lögð til á þróun samkeppnisstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni annars vegar og á þéttbýlissvæðinu hér suðvestanlands hins vegar. Ég vil taka undir það sem segir í niðurlagi greinargerðar með þáltill. að jöfnun lífskjara, svo og jöfnun rekstrarskilyrða fyrirtækja án tillits til staðsetningar þeirra verði að vera meðal forgangsverkefna ef árangur eigi að nást í byggðamálum.

Innan okkar raða hefur talsvert verið rætt um hvaða leiðir skuli fara til að ná þessu marki. Hv. þm. Kristján L. Möller á sér marga skoðanabræður innan okkar raða um að sú leið væri æskileg að nota skattkerfið í þessu tilliti og sjálfur ætla ég alls ekki að útiloka að sú leið verði farin. Það er æskilegt að kanna hana. Hann vísar til Norður-Noregs og Norður-Svíþjóðar í því efni.

Hins vegar vil ég lýsa þeirri skoðun minni að ég hef ákveðnar efasemdir um að þetta sé endilega rétta leiðin, heldur eigi að hafa sama skattafyrirkomulag fyrir landið allt, óháð búsetu, en hins vegar eigi að koma stuðningur til að bæta upp þennan aðstöðumun. Þar er ég hjartanlega sammála hv. 1. flm. Kristjáni L. Möller að mikilvægt er að ná því meginmarkmiði. Þar er ég honum sammála og ítreka stuðning við þetta meginmarkmið þessarar þáltill.