Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 22:40:50 (3996)

2002-02-04 22:40:50# 127. lþ. 68.12 fundur 266. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[22:40]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Munurinn á flokkum stjórnarandstöðunnar og stjórnarliðsins í byggðamálum er sá að við sem erum í stjórnarandstöðunni höfum lagt hér fram á þessum vetri fjölmörg mál sem lúta að því að reyna að efla byggð í landinu. Hv. þm. Kristján L. Möller á hrós skilið fyrir það frumkvæði sem hann hefur tekið, ekki bara varðandi þessa þáltill. sem hér er til umræðu heldur mörg önnur mál sem lúta að því að bæta hag landsbyggðarinnar sem hann hefur tekið upp hvað eftir annað hér á hinu háa Alþingi.

Stjórnarliðið virðist hins vegar ekki geta komið sér saman um neina stefnu í byggðamálum. Milli stjórnarliða eru átök um Byggðastofnun. Milli stjórnarliða eru átök innan Byggðastofnunar. Milli stjórnarliða eru átök um byggða\-áætlun sem gerir það að verkum að ekki er búið að leggja hana fram hér í þinginu, heldur situr hún föst í pípulögnum þingflokka stjórnarliðsins. Það eru átök milli stjórnarflokkanna um hvaða aðgerðir eigi að brúka til þess að reyna að rétta hlut landsbyggðarinnar og átök eru milli stjórnarflokkanna um hvaðeina sem lýtur að byggðamálum. Eitt er þó alveg ljóst, herra forseti, að afrekaskrá þeirra hæstv. ráðherra sem hafa undanfarið farið með byggðamál af hálfu ríkisstjórnarinnar er u.þ.b. ámóta.

Ég hygg að á engan sé hallað þegar ég held því fram að hæstv. forsrh. hafi staðið sig verr en nokkur ráðherra á síðustu áratugum hvað varðar stefnumótun og framkvæmd stefnu um jafnvægi í byggð landsins. Það er einungis hægt að nefna einn ráðherra sem kemst með tærnar þar sem hæstv. forsrh. hefur hælana og það er núv. byggðamálaráðherra.

Herra forseti. Þess vegna hafa þingmenn Samfylkingarinnar lagt fram þessa tillögu. Hún er ein af fjölmörgum málum sem þingmenn stjórnarandstöðunnar og Samfylkingarinnar hafa lagt fram um þessi mál. Sú tillaga sem hér liggur fyrir og hv. þm. Kristján Möller hefur mælt fyrir skörulega lýtur að því að kanna hvaða áhrif þungaskattur hefur haft á flutningskostnað og þar með verðlag í landinu. Það hefur komið fram, herra forseti, í þessari umræðu að á síðustu árum hefur sú fjárhæð sem hæstv. ríkisstjórn hrammsar til sín í formi þungaskatts, stórhækkað. Hv. þm. Kristján Möller sýndi fram á það með tölum hér áðan hvernig hún hefur á síðustu árum aukist úr 3,9 milljörðum í 5 milljarða á þessu ári.

Herra forseti. Er hægt að halda því fram að þingmenn Samfylkingarinnar fari með rangt mál þegar við höldum því fram að þetta sé dæmigert um það að ríkisstjórnin mergsýgur landsbyggðina?

Ef hæstv. ríkisstjórn er alvara í því efni að reyna að rétta hlut landsbyggðarinnar, hví í ósköpunum reynir hún ekki að beita sér fyrir því að draga úr þungaskattinum?

Margt veldur því að landsbyggðin stendur höllum fæti gagnvart þéttbýlinu. Við getum nefnt óhagstæðar rekstrareiningar. Við getum nefnt litla samkeppni í verslun á landsbyggðinni. En eitt er alveg ljóst, eins og hér hefur verið sýnt fram á með óhrekjandi tölum, að flutningskostnaður á snaran þátt í þeirri óheillaþróun sem orðið hefur í verðlagi á landsbyggðinni. Þetta er eitt af því sem hvetur flóttann þaðan og hingað til þéttbýlisins.

Og hver er það sem ber ábyrgðina á því, herra forseti? Það er auðvitað ekki hægt að ásaka hæstv. ríkisstjórn fyrir að hafa ekki komið upp nægilegri samkeppni í t.d. matvælaverslun á landsbyggðinni. En hægt er að ásaka hana fyrir það að hafa með handafli ýtt upp vöruverði með því að hafa hér á hinu háa Alþingi ýtt upp þungaskattinum og þar með ýtt upp flutningskostnaðinum sem hækkar verðlagið.

Ef hér væri t.d. hæstv. byggðamálaráðherra, sem auðvitað ætti að sitja eða standa eftir atvikum, undir þessari umræðu, mundi ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað í ósköpunum veldur því að ríkisstjórnin vindur ekki bráðan bug að því að lækka þungaskattinn? Hvað í ósköpunum kemur í veg fyrir að hún reyni með þessum hætti að standa við stóru orðin um að jafna kjörin milli íbúa landsbyggðar og þéttbýlis? Mér er það óskiljanlegt, herra forseti.

Sú tillaga sem hv. þm. Kristján Möller hefur hér reifað gengur út á það m.a. að sett verði nefnd til þess að kanna hvernig þungaskatturinn hefur haft áhrif á verðlag og ýtt því upp á síðustu árum. Sömuleiðis á þessi nefnd að leita leiða til þess að draga úr flutningskostnaði. Ein leiðin, herra forseti, hlýtur að felast í því að lækka þungaskattinn.

Ég er sammála þeirri tillögu sem hv. þm. Kristján Möller hefur hér reifað. Hún felst í því að fara að dæmi frænda okkar í Noregi, sem hafa skipt landinu í svæði og þungaskatturinn er mismunandi eftir svæðum.

Ég er alveg sammála þegar því er haldið fram hér af hv. þingmönnum Samfylkingarinnar af landsbyggðinni að giska mikið óréttlæti felst í því að íbúi Raufarhafnar eigi að borga kannski tugum króna hærra verð fyrir tiltekna dagvöru heldur en sá sem býr á suðvesturhorninu, einvörðungu vegna þess að ríkisstjórnin hefur af viskuleysi sínu og fávisku lagt svona háan þungaskatt á þá sem eiga heima á Raufarhöfn. Þetta er ranglæti, herra forseti.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson reifaði hér í stuttu máli ákaflega margt af því sem hefur leitt til þess að landsbyggðin á í vök að verjast. Hann nefndi flutning og sölu aflaheimilda burt af strandlengjunni. Hann nefndi þá þróun sem við höfum séð í landbúnaði til sveita. Og hann tók undir það sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa hér reifað, að flutningskostnaðurinn er eitt af því sem hefur ýtt upp verðlagi og verðlagið er ein af þeim svipuólum sem stundum ríður á hrygglengju þeirra sem búa á landsbyggðinni og reka flóttann þaðan.

Herra forseti. Ég fagna þess vegna þeim stuðningi sem hefur komið frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni og hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni. Það sýnir að í þessu efni er stjórnarandstaðan einhuga. En auðvitað saknar maður þess að í þessari umræðu í kvöld og áður en henni var frestað, hefur enginn þingmanna stjórnarliðsins kvatt sér hljóðs og reifað þessa tilögu. Ég skil það vel, herra forseti. Stjórnarliðið hefur vonda samvisku í þessu máli. Stjórnarliðið hefur brugðist væntingum landsbyggðarinnar. Stjórnarliðið hefur brotið þau loforð sem það gaf. Það stendur nánast ekki steinn yfir steini í þessum efnum, herra forseti.

Ekkert er óbrotgjarnara í minnisvarða um vanefndir stjórnarliðsins en loforðin sem gefin voru t.d. um flutning starfa út á land í fjarvinnslu. Þar skutu menn sér á bak við staða embættismenn, herra forseti. Ég held að sú tillaga sem hér liggur fyrir sé ákaflega heillavænleg til þess að rétta hlut landsbyggðarinnar.