Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 22:50:28 (3998)

2002-02-04 22:50:28# 127. lþ. 68.12 fundur 266. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[22:50]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það eina sem hv. þm. stjórnarliðsins hafa til málanna að leggja hérna er að reyna að finna einhvers konar rökfræðilegar gildrur fyrir okkur stjórnarandstæðinga að falla í.

Hv. þm. Arnbjörgu Sveinssyni sem situr í samgn. hefði ...

(Forseti (ÁSJ): Sveinsdóttur.)

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa í stuttri ræðu minni skipt um kyn á hv. þm. Það sem ég vildi sagt hafa er að hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur hefði verið sæmra að koma hingað og lýsa afstöðu sinni til þeirra tillagna sem koma fram í þingskjali sem hér var reifað. Hv. þm. beinir til mín nokkrum spurningum og kjarninn í þeim er eftirfarandi: Hvernig vill Samfylkingin kosta vegagerð í landinu ef hún vill lækka þungaskatt?

Herra forseti. Við erum að tala um réttlæti og ég spyr hv. þm. á móti: Er fólgið réttlæti í að íbúi á Raufarhöfn borgi tugum króna meira fyrir kíló af dagvöru en íbúi á suðvesturhorninu einvörðungu vegna þess fyrirkomulags sem hæstv. ríkisstjórn hefur í þungaskattsmálum? Ég segi nei.

Ég bendi hv. þm. á þá staðreynd að á örskömmum tíma hefur ríkisstjórnin tekið 1.100 kr. meira úr pyngju landsmanna í gegnum þungaskattinn. Það hefur lagst hlutfallslega harðast á íbúa landsbyggðarinnar. Ég sé þess ekki stað í vegagerð landsins.

Má ég síðan vísa til svars hæstv. forsrh. þegar hann var spurður hér fyrir tveimur dægrum hvernig hann ætlaði að fjármagna þær 750 milljónir sem það kostaði að lækka gjaldskrá opinberra fyrirtækja. Hvað sagði hæstv. forsrh.? Við ætlum að auka aflaheimildirnar. Kannski það væri hægt líka í þessu?