Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 22:52:28 (3999)

2002-02-04 22:52:28# 127. lþ. 68.12 fundur 266. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[22:52]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki svaraði þingmaðurinn þeirri spurningu sem ég beindi til hans.

Ég neita því ekki og hef aldrei neitað því að flutningskostnaður á landsbyggðinni er vandamál. En á þá að fella niður þungaskatt, þann tekjupóst sem staðið hefur undir vegagerð í landinu? Ég spyr enn á móti: Hv. þm. fullyrti að við værum illa stödd í vegagerð og hann sæi þess ekki merki að unnið væri að vegagerð í landinu. Hvar í ósköpunum hefur hann verið ef hann hefur ekki séð að unnið hafi verið að vegagerð? Það hefur verið gert hér í Reykjavíkurborg með mjög miklum ágætum. Ekki þarf annað en að horfa á allar göngubrýrnar yfir hraðbrautirnar í Reykjavík til að sjá það. Ef hann hefur farið út um landið og litið til kjósenda sinna þar hefur hann væntanlega séð að þar hefur mikið áunnist í vegagerð og væri full ástæða til að vekja athygli þingmannsins á því, ef hann hefur ekki tekið eftir því á ferðum sínum um landið. Ég trúi ekki öðru en að hann hafi nú annað slagið litið út úr höfuðborginni.