Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 23:09:03 (4004)

2002-02-04 23:09:03# 127. lþ. 68.12 fundur 266. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[23:09]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. var venju fremur seinheppin með þessa spurningu. Hér stendur sá þingmaður sem flutti heila stofnun, þótt smá væri, út á land í hið nýja kjördæmi hv. þm. eins og það stendur nú, þ.e. ég flutti embætti veiðistjóra til Akureyrar. Ég var upphafsmaður að því að Landmælingar Íslands voru fluttar til Akraness. (Gripið fram í: Nei. Nei.) Heldur hver? Það var nákvæmlega fyrrv. umhvrh. með góðum tilstyrk þáv. hæstv. fjmrh., Friðriks Sophussonar, sem var upphafsmaðurinn að því þótt Guðmundur Bjarnason hafi síðan leitt það mál til lykta. Það getur hv. þm. Guðjón Guðmundsson auðvitað kannað bara í skjölum ríkisstjórnar sinnar. (GuðjG: Ekki skreyta sig með annarra fjöðrum.)

Herra forseti. Við getum bara skoðað þetta. Það er þó a.m.k. ekki hægt að halda því fram að sá þingmaður sem hér stendur hafi ekki flutt hina merku stofnun, embætti veiðistjóra, til Akureyrar. Ætlar hv. þm. að hafna því? Svo er ekki. En það gerði hann vegna þess að hann taldi að viðfang þeirrar ríkisstofnunar væri einungis að finna þar. Hvorki mink né skolla er að finna hér í Reykjavík þar sem stofnunin var nema þá í kringum Austurvöll og Tjörnina.

Herra forseti. Ég hlýt auðvitað að spyrja hv. þm., Arnbjörgu Sveinsdóttur, hvort hún telji eitthvað skrýtið að von hafi vaknað hjá landsbyggðinni þegar hæstv. forsrh. sem þjóðin eðlilega treystir kom fram í fjölmiðlum og hampaði skýrslu Iðntæknistofnunar. Hvað stóð í henni? Að 900--1.400 fjarvinnslustörf væri hægt að flytja út á land. Er eitthvað skrýtið þótt von hafi vaknað? Er eitthvað skrýtið þótt von hafi vaknað þegar hv. 1. þm. Norðurl. e. kom í kjördæmi sitt og sagði bókstaflega: ,,Það er búið að taka ákvörðun.`` Halda menn kannski að ekki sé mark takandi á slíkum manni? Ég gerði það a.m.k. á þeim tíma.