Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 23:11:21 (4005)

2002-02-04 23:11:21# 127. lþ. 68.12 fundur 266. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[23:11]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki skrýtið að von vakni. Í hvert skipti sem menn nefna góð mál og sýna fram á hægt sé að framkvæma þau vaknar auðvitað von. Að sjálfsögðu.

Þessi ágæta skýrsla var unnin af helstu embættismönnum, ráðuneytisstjórum og stofnanaforstjórum, í Reykjavík sem sögðu að þeir gætu flutt þessi störf. Og hverju eigum við að trúa, hv. þingmaður, öðru en að það sé hægt og að þeir hafi fullan vilja á bak við það sem þeir eru að segja, þessir ágætu ríkisforstjórar og embættismenn? (Gripið fram í.) Ég bara spyr. Er ekki ástæða til að trúa því? Þeir eru fengnir til að vinna svona skýrslur. Og auðvitað trúir maður því. Að sjálfsögðu.

En hv. þm. svaraði ekki hvað til viðbótar hann gæti flutt --- ég ætla að hrósa hv. þm. fyrir röggsemi hans í að flytja veiðistjórann til Akureyrar. Og hafi hann átt þátt í því að flytja Landmælingar upp á Akranes er auðvitað rétt að halda því á lofti. Og minnast þess oft og gjarnan. Við skulum þá reikna með því að hv. þm. sé ekki í hópi þeirra þingmanna Samfylkingarinnar sem gjarnan hafa gagnrýnt flutning á stofnunum út á land, m.a. þeir sem hæst hafa gagnrýnt t.d. flutning Landmælinga upp á Akranes. Ég trúi því að hann sé þá ekki í þeim flokki sem er hvað gagnrýnastur á það að vera yfir höfuð að flytja til stofnanir.