Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 23:13:29 (4006)

2002-02-04 23:13:29# 127. lþ. 68.12 fundur 266. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[23:13]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að hæla hv. 2. þm. Austurlands, Arnbjörgu Sveinsdóttur, fyrir eitt. Það er að koma hér í ræðustól og taka til máls um byggðamál. Að taka til máls um þá þáltill. sem við höfum verið að ræða um áhrif þungaskatts á vöruverð og samkeppnishæfni fyrirtækja á landsbyggðinni. En ég tók eftir því í ræðunni að það var ekkert rætt um það mál, flutningskostnaðinn, bæði hvað varðar vöruverð og aðföng til atvinnurekstrar. Og ég vil nota þetta tækifæri, herra forseti, og spyrja hv. þm. út í skoðanir hennar á þessari þáltill. og á þeim stórhækkaða flutningskostnaði sem íþyngir landsbyggðinni um þessar mundir.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi hér áðan að þungaskatturinn fyrir flutningabíl með vagn er um 70.000 kr. á ferð. Ef farnar eru þrjár ferðir í viku sem ég geri ráð fyrir að séu austur á þennan ágæta stað eru það 210.000 kr. sem viðkomandi flutningabílstjóri er að greiða. Ef við höldum áfram með það hvað þetta kostar þá, flutningabílstjórana, ef með er tekinn olíukostnaður, slit á dekkjum og laun má margfalda þessa tölu með þremur. Og þá er það 630.000 kr. sem íbúar Seyðisfjarðar eru að borga fyrir þá flutninga sem eiga sér stað í þessum þremur ferðum frá höfuðborgarsvæðinu og austur. (ArnbS: Þetta eru bara þrjár. Heldurðu að séu ekki fleiri en þrjár ferðir á Seyðisfjörð?) Ja, við skulum þá taka fimm ferðir og þá bið ég hv. þm. að koma með þær tölur og rökstyðja fyrir mér hvernig íbúar Seyðisfjarðar fara að og hvert þessi kostnaður fer. Fer hann ekki beint út í verðlagið?

Hv. þm. var allan tímann áðan í umræðum um fjarvinnsluverkefni að reyna að snúa ábyrgðinni, hinni pólitísku ábyrgð forsrh. og stjórnarflokkanna, á embættismenn. Og það var frekar lítilmannlegt.