Sala Landssímans

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 13:35:00 (4011)

2002-02-05 13:35:00# 127. lþ. 69.91 fundur 307#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[13:35]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. og ekki síður og aðallega vegna frétta í hádegisútvarpinu í dag, Ríkisútvarpinu, varðandi samningaviðræður við TDC skal ég taka eftirfarandi fram. Það er í samræmi við fréttatilkynningu sem einkavæðingarnefnd hefur sent út.

PriceWaterhouse Coopers fyrir hönd framkvæmdanefndar um einkavæðingu sendi TDC bréf í gær þar sem fyrirtækinu var greint frá að á næsta viðræðufundi yrði farið yfir niðurstöðu ársreikninga 2001 og endurskoðaða ársreikninga 2002, en hvort tveggja verður tilbúið fljótlega.

Jafnframt var TDC greint frá því að framkvæmdanefnd um einkavæðingu áskildi sér rétt til að eiga viðræður við aðra aðila sem sýnt hafa sölunni áhuga að undanförnu. Því er rangt að viðræðum við TDC hafi verið slitið af hálfu nefndarinnar.

Þá er það miður að TDC virðist að undanförnu kjósa að bera nefndinni skilaboð í gegnum fjölmiðla. Nefndin mun á fundi síðar í vikunni taka ákvörðun um framhald málsins.

Þetta vildi ég að kæmi fram, herra forseti, vegna ræðu hv. þm.