Sala Landssímans

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 13:38:06 (4013)

2002-02-05 13:38:06# 127. lþ. 69.91 fundur 307#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[13:38]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. ber hér þinginu stórtíðindi. Allt söluferli Símans er í uppnámi. Sá sem valinn hafði verið úr hópi kjölfestufjárfesta, þ.e. bjóðenda, hefur nýverið tilkynnt um að einkaviðræðum við hann sé í raun slitið og opnað hafi verið á viðræður við aðra lysthafendur í þessum efnum. Það heitir auðvitað á íslensku máli að öllu söluferlinu hefur verið snúið til baka, að bakkað hafi verið um fleiri mánuði og menn í raun komnir á byrjunarreit.

Þetta eru eilítið önnur tíðindi en hæstv. samgrh. bar þinginu fyrir örfáum dögum þegar sama mál bar á góma. Það er því alveg ljóst, herra forseti, að það er full ástæða til að þetta mál komi með einum eða öðrum hætti til kasta þingsins á nýjan leik. Ríkisstjórnin, einkavæðingarnefndin og samgrh. hafa haldið þannig á spilum, tímasett skrefin í söluferlinu með þeim hætti að nú er vandi fyrir dyrum, verðið í lágmarki, bjóðendur týna tölunni og við erum ekki að tala um neina smáaura, herra forseti. Við erum að tala um tugmilljarða sölu af eignum almennings, grundvallarfyrirtæki á vettvangi fjarskipta.

Herra forseti. Það er vá fyrir dyrum. Það er tími til þess og ráðrúm að staldra við og gaumgæfa stöðuna. Nú er tími til að bíða, nú er tími til að kalla Alþingi Íslendinga að málinu og marka næstu skref. Það er ljóst að ríkisstjórnin klárar ekki þetta verk og hæstv. samgrh. allra síst.