Sala Landssímans

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 13:40:07 (4014)

2002-02-05 13:40:07# 127. lþ. 69.91 fundur 307#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[13:40]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það eru ákaflega mikil tíðindi sem hæstv. samgrh. færir hinu háa Alþingi. Hann er í reynd að segja að slitnað hafi upp úr viðræðum við Tele Danmark. Það er það sem er að gerast.

Hæstv. samgrh. segir að farið verði yfir málin á næsta viðræðufundi með Tele Danmark. Það kemur hins vegar fram hjá forstjóra Tele Danmark að það er ekki fyrirhugaður neinn næsti fundur. Það eru engar viðræður í gangi. Þetta er fullkomið klúður hjá hæstv. samgrh. en þó er ábyrgðin kannski fyrst og fremst hjá einkavæðingarnefnd sem hefur haft íslensku þjóðina að fífli. Hún hefur orðið sér til skammar með því að vera í viðræðum við fyrirtæki sem bersýnilega hefur fyrir löngu misst allan áhuga. Annaðhvort hefur einkavæðingarnefnd, hæstv. ríkisstjórn eða hið danska fyrirtæki farið með rangt mál þegar það kemur fram 8. desember að borist hafi bindandi kauptilboð, m.a. um verð. Hver sagði það, herra forseti? Það var einkavæðingarnefnd sem lét þær upplýsingar koma fram í blöðum. Var það bara vitleysa, herra forseti?

Það er hvað eftir annað verið að hafa íslensku þjóðina að ginningarfífli í þessu máli. Má ég spyrja, herra forseti: Hvar eru nú þingmenn Framsfl.? Hvar er hv. þm. Magnús Stefánsson, varaformaður stjórnar Landssímans, sem sagði í blaði fyrir tveimur dögum að að svo stöddu, meðan ekkert nýtt kæmi fram, væri hann ekki þeirrar skoðunar að hætta ætti við sölu Símans. Hvað segir hv. þm. Magnús Stefánsson núna? Hvað segir hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson? Hvað segir varaformaður Framsfl.? Ætla þeir að láta Sjálfstfl. teyma sig á asnaeyrunum í þessu máli?

Herra forseti. Nú er komið að því að þingmenn Framsfl. komi hér upp og segi sína meiningu, sýni að þeir leki ekki niður í þessu máli, að það sé bein í bökum þeirra. Ætla þeir að standa við stóru orðin?

Herra forseti. Það er til hreinnar vanvirðu fyrir íslensku þjóðina hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á þessu máli.