Sala Landssímans

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 13:42:28 (4015)

2002-02-05 13:42:28# 127. lþ. 69.91 fundur 307#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[13:42]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þetta eru afskaplega undarlegar umræður svo ekki sé meira sagt. Það er vá fyrir dyrum, segja menn. Hvaða vá er fyrir dyrum? Menn selja þetta fyrirtæki ef þeir eru sáttir við verðið, ella verður ekki selt. Hvaða vá er fyrir dyrum? Ekki nokkur einasta. Hvernig hefur þjóðin verið höfð að ginningarfífli? Hugsið ykkur þessi stóru orð hér. Hver hefur gert það? Hvaða vitleysa er þetta eiginlega?

Hér er því haldið fram að lagt hafi verið fram bindandi verðtilboð. Kauptilboð með bindandi verði, sagði hv. þm. Það hefur aldrei verið gert. Þessi hv. þm. kemur aftur og aftur í ræðustól í máli eftir máli, fer með hreint fleipur í upphafsorðum sínum og byggir síðan alla ræðu sína á því fleipri eins og um staðreyndir sé að ræða. Auðvitað verður ræðan tóm vitleysa ef menn byrja á því að koma með eitthvert fleipur og leggja svo út af fleiprinu eins og hv. þm. gerði. Það var ekkert að því sem varaformaður stjórnar Símans sagði á sínum tíma í þinginu, ekki nokkur skapaður hlutur.

Auðvitað er það svo að ef við fáum ekki það verð fyrir Símann sem við viljum þá verður hann ekki seldur. Það er ekki nokkur ágreiningur um það. Viðræður hafa verið í gangi og viðræður eru í gangi --- viðræður eru þessa stundina í gangi, á þessu augnabliki. Allt er í góðu lagi vegna þess að það er í fínu lagi að viðræður séu í gangi meðan menn vita hvað þeir eru að gera en ætla ekki að selja fyrirtækið nema þeir fái það verð fyrir það sem þeir vilja. Það er ekki nokkur vá fyrir dyrum þannig að þetta upphlaup hér er allt tóm endaleysa. (ÖJ: Bara misskilningur.) Það er mikill misskilningur. Loksins hittir frammíkallarinn á.