Sala Landssímans

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 13:50:43 (4019)

2002-02-05 13:50:43# 127. lþ. 69.91 fundur 307#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[13:50]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það er mjög athyglisvert að hlusta á hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar ræða um þetta mál. Það er mikið lán satt að segja að ábyrgð þeirra er ekki meiri en raunin er.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi um uppbyggingu fjarskiptakerfisins í landinu. Ég held að mesti skaðinn í því máli öllu sé sá að hann skyldi ekki nota tækifærið á meðan hann var samgrh. til að taka á í þessu máli heldur hafa allt óbreytt og gera ekkert í uppbyggingu eða eflingu fjarskiptakerfisins. (Gripið fram í.) Það skiptir auðvitað mjög miklu máli. Það var ekki fyrr en hv. þm. og forseti Alþingis Halldór Blöndal tók til hendi að eitthvað fór að gerast í fjarskiptamálum á Íslandi. Það ætti hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að rifja upp með sjálfum sér á kvöldstundum.

Það er hins vegar staðreynd að viðræðum hefur ekki verið slitið um þennan söluferil. Það liggur fyrir og ég held að hv. þm. ættu ekkert að hlakka sérstaklega fyrir fram yfir þeirri niðurstöðu. Eins og ég hef sagt áður vinnum við skipulega að þessu máli og af festu en látum ekki stjórnarandstöðuna, hvorki hrekja okkur af leið né telja úr okkur viljann til að vinna að þessu hagsmunamáli okkar, að tryggja eignir okkar í Símanum. Náist ekki það verð sem við sættum okkur við erum það auðvitað við sem höldum á eigninni, sem ráðum þeirri ferð en ekki aðrir.