Útlendingar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 14:49:55 (4033)

2002-02-05 14:49:55# 127. lþ. 69.3 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[14:49]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér hefur hæstv. dómsmrh. mælt fyrir frv. til laga um útlendinga. Það er eflaust í þriðja sinn sem það gerist en frv. náði ekki fram að ganga á síðasta vorþingi.

Því er kannski fyrst við það að bæta sem hæstv. dómsmrh. sagði, eftir enn eina yfirferð mína yfir þetta frv., að ég fæ ekki séð að í sjálfu sér mæti frv. endilega nokkru sem snertir 11. sept., bara svona til þess að upplýsa þingmenn um það hafi þeir ekki skimað í gegnum það. Þeim atburðum hefur fyrst og fremst verið mætt með ákveðnum sérlögum og síðan nefndinni ætlað að vinna nánar í þeim málum. Ég fæ ekki betur séð en að þannig sé í pottinn búið. Þannig að það er greinilega talsverð vinna enn eftir við frv.

Ég vil líka upplýsa að það fór fram mikil og góð vinna og umræða í allshn. á síðasta vetri varðandi þetta mál þó að við værum þar ekki sammála um allt. Við munum þá takast örlítið á um þær fyrirhugðu þrengingar sem hér hafa verið boðaðar. Við tökum á því verkefni í nefndinni. Ég hef fulla trú á að það verði afar spennandi.

Við erum öll sammála um að það þurfi ný útlendingalög, það er ekki nein spurning. Lögin sem unnið er eftir núna eru eins og gatasigti, eru í rauninni ónýt. Það er ekkert flóknara en svo. Ég er auðvitað talsmaður þess að ný lög verði sett þannig að hægt sé að fara að vinna eftir ákveðnu skikki.

Ég vil hins vegar gagnrýna að nú, þegar frv. kemur fram í annað sinn, skuli ekki vera getið í greinargerð þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á frv. Ég er ekkert að harma að ég þurfi að lesa enn frekar, það er ekki það. Ég harma það ekki að við þurfum að vinna meira að frv. í nefndinni. En mér finnst eðlilegt að þess sé getið í greinargerð þegar verið er að leggja frv. fram aftur, í rauninni í þriðja sinn, hvaða breytingar hafi verið gerðar. Málið er að gerðar hafa verið a.m.k. átta breytingar, á 2., 11., 19., 29., 33., 45., 55. og 57. gr., þ.e. það er ein ný grein um vinnslu persónuupplýsinga. Mikið af þessum breytingum er til góða, mjög til góða.

Auðvitað stendur hæst að það er búið að taka út þetta með erfðaefni úr útlendingum og DNA-rannsókn. Það er líka búið bæta inn ákvæðum varðandi vanvirðandi meðferð í 15. gr. Það er búið að setja inn ákvæði um vinnslu persónuupplýsinga og gera fullt af hlutum sem eru góðir. Það á auðvitað að halda því til haga, það er afar mikilvægt. Breytingarnar sem þegar hafa verið lagðar fram eru til hins betra fyrir frv.

Ég er hins vegar ein af þeim sem finnst vinnulagið varðandi frv. ekki til fyrirmyndar, þ.e. ég hefði gjarnan kosið að sjá það vinnulag að að gerð frv. kæmi vinnuhópur. Auðvitað var unnið þannig í upphafi að gert var uppkast í dómsmrn. og síðan voru kallaðir til aðilar, þeir látnir lesa yfir og síðan fór það aftur í vinnslu. Þau vinnubrögð mætti kalla ,,boltakastsvinnubrögð``, sem í sumum tilfellum eru alveg ágæt. En þegar við erum að taka upp grundvallarlöggjöf, t.d. útlendingalöggjöf, barnaverndarlöggjöf, þ.e. grundvallarlöggjöf sem þarf að duga meira en fimm ár án þess að henni sé kúvent aftur, er mjög algengt og gott vinnulag að setja saman vinnuhóp sem er samhæfður hópur sérfræðinga sem er að vinna á gólfinu með þessi mál. Það er fínt að vinna grunninn og ég er sammála því. En síðan kæmi að málinu vinnuhópur sem mundi kemba dálítið í gegnum það, --- hann getur líka verið með minni hluta og meiri hluta --- síðan fari það í ráðuneytið. Það mundi tryggja að fagfólkið kæmi að vinnslu málsins.

Með slíku vinnulagi kæmust að nýrri hugmyndir. Við löguðum okkur frekar að þeirri löggjöf sem fyrir er í nágrannalöndum okkar. Það gerist bara í svona vinnu því að faghóparnir eru oft í norrænum tengslum. Þeir skoða í sínum ranni hvað megi betur fara, hverjir séu kostirnir og hverjir gallarnir, af hverju getum við lært o.s.frv. Það er gott vinnulag. Ég segi það enn, ég sagði það síðast, að ég harma að það skuli ekki viðhaft í þessu máli. Þegar málið fór út héðan síðasta vor átti auðvitað að reyna að leitast við að vinna einhverja svona vinnu. Ég fer ekki ofan því. Ekki hefur reglugerðunum fækkað. Þær eru núna 34, ég hef enn á ný talið þær.

Við erum enn að kljást við að þetta er ekki nógu gegnsætt. Það er afar mikilvægt að lög um útlendinga séu tiltölulega gegnsæ. Það er mikilvægt fyrir þann hóp sem þarf að vinna eftir þeim og líka útlendingana sjálfa. Þannig er það. Ég vil fyrst og fremst benda á hina stóru drætti í máli mínu núna. Við getum unnið áfram og rætt dálítið í nefndinni um hin smærri atriði síðar. Ég hefði sem sagt viljað sjá önnur vinnubrögð og þá hefðum við kannski til meðferðar frv. sem væri meiri sátt um.

Það sem stendur líka eftir núna er allur sá pakki af athugasemdum sem gerður var við fyrra frv. Hann stendur í rauninni algjörlega óhaggaður. Ég segi það þó ekki alfarið. Hér eru nokkrar breytingar sem við eigum endilega að halda til haga því að þær eru mjög góðar. Ég veit að það verður ánægja með þær. En eftir sem áður getum við í rauninni bara unnið með það plagg sem lagt hefur verið fyrir og haldið áfram að ræða um það. Það er hið besta mál.

Ég sakna þess, eins og ég sagði síðast þegar málið var tekið fyrir og ég hef sagt það í nefndinni, að sjá ekki í frv. nýja hugsun varðandi Útlendingastofnun. Ég held að það sé afar mikilvægt, úr því að við erum að stofna hana, að setja meira í hana. Það er ekki lítið búið að ræða í þessari nefnd að fyrirmyndin sé norsku lögin. Í tengslum við það rann upp ein af þessum örfáu ögurstundum sem ég hef orðið svo æst að ég hef vart mátt mæla. Norsku lögin eru t.d. alveg gríðarlega prógressíf varðandi útlendingastofuna. Ég vil bara benda þingmönnum á www.ud.no, vef útlendingastofnunar Norðmanna. Þar sést allt um það hvernig hún er uppbyggð. Mér finnst skipta gríðarlegu máli að sú útlendingastofnun sem við ætlum að hafa hér fái eitthvert vægi, sé skipuð fagmönnum og hún fái meira umráðasvæði. Ég vil það, sjá meiri samhæfingu í þessum málaflokki. Það væri okkur öllum til góðs.

Í Noregi eru t.d. öll atvinnumál útlendinga, allir hælisleitendur, öll búsetu- og dvalarleyfi samhæfð á einum stað. Þar eru þeir líka með samvinnu við sveitarfélögin sem eru með útlendinga í vinnu. Á sama hátt mætti taka hér upp afar náið samstarf með Ísafirði o.s.frv. Ég vil bara benda þingmönnum á þetta. Ég hefði viljað sjá vinnu fara í þetta og að við breyttum þessu. Ég vil sjá það enn að það sé stjórn á bak við Útlendingastofnun sem samanstandi af Rauða krossinum, Persónuvernd og einhverjum sem dómsmrh. mundi skipa. Þá værum við að tala um almennilega, faglega vinnu þannig að réttur fólks sé á engan hátt fyrir borð borinn. Þannig fengist trygging fyrir því að svona stofnun, þ.e. Útlendingastofnun, hefði gott og faglegt bakland og aðhald. Auðvitað vilja slíkar stofnanir hafa aðhald. Ég vil benda á þetta. Mér finnst að það eigi að skoða þetta, ég fer ekkert ofan af því.

Á annað mál, sem ég hef mikið rætt í nefndinni, er ekki minnst einu orði. Það var þó komið í nál. hjá nefndinni þegar málið var komið á lokasprettinn í vor, þ.e. varðandi aðstæður barna. Núna er rætt um að vera í takt við 11. september. Það vantar ekkert upp á það og við eigum að hegða okkur í takt við þá atburði. Ég ætla hins vegar að benda áfram á þennan vef útlendingastofnunarinnar í Noregi. Aðalvandamálið í allri Skandinavíu er að það er verið að senda forsjárlaus börn á milli landa. Ég er hér með tölur um hversu mörg börn um er að ræða, hvaðan þau koma og hvað þau eru gömul. Við erum að tala um 500 börn á ári á Norðurlöndunum, sem auðvitað er reynt að vinna fyrir og styðja á allan hátt. Ég er til í að láta nefndarmenn fá það plagg, mjög þykkt plagg, vinnuplagg útlendingastofnunar Norðmanna, félagsmálayfirvalda þar og Rauða krossins, um hvernig eigi að bregðast við þegar börn koma forsjárlaus á milli landa. Ef Danir herða sína löggjöf --- þeir virðast ætla að gera það og hæstv. dómsmrh. nefndi það hér áðan --- gætu komið upp fleiri slík vandamál á Íslands ef við stöndum ekki á vaktina. Hvað með öll börnin?

[15:00]

Við höfum ekki stafkrók um málefni þessara barna hérna. Mér finnst það ekki ábyrgt svo ég segi eins og er. Við eigum einmitt að baktryggja okkur. Það vita þeir hv. þm. sem vilja og hafa kynnt sér þennan málaflokk að þegar er farin af stað umræða á milli Rauða krossins, Barnaverndarstofu og sveitarfélaganna um hvernig eigi að bregðast við. Það verður að hafa lagagrundvöll í þessum málum þannig að hægt sé að taka á móti þessum börnum. Þetta heitir að vera undirbúinn. Þetta heitir ekki einu sinni að vera róttækur. Ef það væri nú það. Þetta heitir bara að vera undirbúinn með hagsmuni barna í huga.

Ef hvert Norðurlandanna fær til sín 500--600 börn, halda menn ekki að það geti gerst hérna? Af hverju megum við ekki að vera viðbúin? Mér finnst þetta mikil skammsýni. Ég vil því endurtaka og ítreka að eitthvað verður að gera í þessu. Ég hugsa að ég láti formann hv. allshn. hafa eins og eitt stykki eintak af áðurnefndri samantekt þannig að hún átti sig á allri þeirri vinnu sem liggur á bak við hvert barn sem kemur forsjárlaust til landanna, alveg niður í þriggja og fjögurra ára gömul börn, bara send með flugvélum á milli landa. Ég legg gríðarlega áherslu á það.

Við þekkjum náttúrlega hina margrómuðu umræðu um íslensku fyrir útlendinga. Hún hreyfir við öllum hér inni, held ég. Ég er ekkert á móti þeim hugmyndum. Maður veit það sjálfur eftir að hafa búið erlendis í mörg ár að maður reynir að laga sig sem best að samfélaginu sem maður býr í. Mér finnst fáránlegt að ætla að aðrir geri það ekki. Meira að segja Íslendingar í Danmörku hafa bjargað sér á sinni ensku og ekkert verið að tala neina prentsmiðjudönsku þannig að ekki er allt fengið með því. Ég hef hins vegar sagt það áður að mér finnst miklu nær að binda íslenskukennsluna og námið við ríkisborgararéttinn, það er miklu lógískara en að tengja það búseturéttinum. Búseturétturinn á ekki við um alla útlendinga. Mér finnst það mjög skrýtið ef við ætlum alltaf að vera að draga fólk í dilka. Við erum ekki að tala um þá sem eru í Schengen, ekki í EES og ekki Norðurlandabúa. Þetta er enginn smáhópur. Þetta eru stærstu hóparnir hér. Við erum því alltaf að tala um það sem kallað er ,,sýnilegir útlendingar`` og svo auðvitað Bandaríkjamenn, að ekki sé nú talað um alla Pólverjana sem halda hér uppi byggð í landinu.

Við eigum því ábyggilega eftir að takast áfram á örlítið um þetta. Ég veit vel að þetta hefur tekið mikinn tíma í ráðuneytinu, sennilega allan tímann, að reikna út kostnaðinn við þessi námskeið. Það líka mjög jákvætt sem kemur fram í greinargerðinni að auðvitað á ríkið þá að axla þær skyldur sem eru því samfara að skikka fólk til að fara á íslenskunámskeið.

Ég er hins vegar sömu skoðunar og stór hópur fólks sem hefur ekki viljað hafa þetta algjöra skyldu, sem vill taka þetta mýkri tökum eða tengja það hreinlega ríkisborgararéttinum.

Herra forseti. Af því að frv. hefur ekki breyst það mikið stendur auðvitað eftir obbinn af athugasemdunum. Við munum þá bara vinna áfram í því í nefndinni. Ég hef hins vegar ekki trú á að það muni mikið breytast úr því það breyttist ekki núna, nema einna helst þetta með börnin. Ég mun ekki liggja á liði mínu við að veita upplýsingar um það mál vegna þess að mér finnst það ofar öllum hagsmunum. Mér finnst að við verðum að reyna að hafa vaðið fyrir neðan okkur í þeim efnum.

Þar sem ég veit að við eigum eftir að ræða margt og mikið um frv. í okkar ágætu allshn. ætla ég ekki að fara yfir einstakar greinar. Ég sé ekki ástæðu til þess. Ég gerði það auðvitað síðast og við höfum rætt þær í nefndinni. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla frekar um þær þó ég hafi komið hér fyrst á eftir hæstv. dómsmrh. Það verður afar spennandi vinna sem við tekur í hv. allshn. Ég vona að hún verði farsæl og að við sjáum einhverjar breytingar á frv. í kjölfar hennar.