Útlendingar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 15:07:01 (4035)

2002-02-05 15:07:01# 127. lþ. 69.3 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., GÖ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Guðrún Ögmundsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er mjög ánægð með þessar undirtektir. Ég veit að í rauninni vilja flestir sjá þetta undir einum hatti. Það er ákveðið lag núna, með stofnun Útlendingastofnunar. Þannig væri í raun afar spennandi að reyna að gefa sér einhvern tíma í það og fara í smá pælingar og með hliðsjón af öðrum löndum.

En ég vil árétta að ég er ekki að tala um börn flóttamanna þegar ég er að tala um börnin. Ég er að tala um börn sem eru send alein og sér. Það er að verða stærsta vandamálið á Norðurlöndum. Börn eru send forsjárlaus á milli landa, smyglað inn í flugvélar í allt mögulegt. Þau eru alein. Við því eru allir eru að reyna að bregðast núna og Norðmenn sérstaklega. Á síðasta ári voru komu 483 börn þannig inn í landið frá öllum heimshlutum og Austur-Evrópa er að verða þar stærst. Þannig er afar brýnt að við setjum reglur varðandi þessi forsjárlausu börn. Hagsmunum barna flóttamanna finnst mér í raun ágætlega sinnt. Það eru fyrst og fremst börnin sem koma ein, forsjárlaus. Á slíku hefur því miður borið í allri Skandinavíu upp á síðkastið.