Útlendingar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 15:25:21 (4039)

2002-02-05 15:25:21# 127. lþ. 69.3 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Út af ræðu hv. þm. hér áðan get ég fullyrt að sambærilegar reglur og koma fram í þessu frv. og eru í lögum í dag eru til staðar í öllum þeim ríkjum sem vilja vernda borgara sína gegn afbrotum og hættulegu fólki.

Hv. þm. spyr: Hvar eru grundvallarreglur réttarríkisins? Ég spyr á móti: Hvar er réttur íslenskra borgara til verndar gagnvart þessu fólki? Þurfum við ekki líka að hafa hann í huga? Og hvar ætlum við að draga línurnar? Við erum að draga línurnar á sama hátt og öll nágrannaríki okkar, Evrópuríki og vestræn ríki almennt og kannski göngum við skemur ef eitthvað er.

Varðandi þessa umræðu um Vítisengla þá hygg ég að það hafi verið almennt álit manna að rétt hafi verið staðið að málum þar. Það er stefna íslenskra stjórnvalda að taka ákveðið á þessum málum. Ég get líka bent á að til eru fordæmi frá nágrannalöndum okkar, t.d. Finnlandi þar sem þessi hópur reyndi að komast inn fyrir u.þ.b. ári síðan og þeim var vísað frá landinu nákvæmlega á sama hátt og hér var gert. Þeir fengu ekki landgönguleyfi. Það er full ástæða til þess að vera á varðbergi gagnvart þessu fólki.