Útlendingar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 15:29:22 (4041)

2002-02-05 15:29:22# 127. lþ. 69.3 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[15:29]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist að við séum komin út í umræðu um Schengen. Það mál er löngu frágengið hér á þinginu.

Ég get alveg tekið undir með hv. þm. um að vissulega þarf að fara varlega í að efla hlutverk lögreglu og gæta að heimildum hennar. Ég vil benda á að í því frv. sem hér er á dagskrá þingsins og fjallar um aðgerðir okkar gegn hryðjuverkum, breytingar á hegningarlögum í tengslum við alþjóðasáttmála og sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þá er einmitt ekki farin sú leið sem verður farin víða annars staðar í löndunum í kringum okkur, m.a. í Danmörku, að efla verulega rannsóknarheimildir lögreglu.

Ég tel að ekki sé þörf á því hér og nú. Ég tel hins vegar rétt að það verði skoðað sérstaklega í tengslum við endurskoðun á lögum um meðferð opinberra mála.

Það er heldur ekki rétt að það sé eingöngu ríkislögreglustjóri sem fari með þessi mál, því auðvitað koma sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli, útlendingaeftirlitið og fleiri aðilar að því.

Ég vil segja það hér og nú og fullyrða að við virðum grundvallarreglur réttarríkisins í þessu frv. Í þessu frv. er vísað til mannréttindasáttmála, alþjóðasamninga, flóttamannasamningsins og íslensku stjórnarskrárinnar. Það ætti nú að duga.