Útlendingar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 15:39:02 (4044)

2002-02-05 15:39:02# 127. lþ. 69.3 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., ÓB
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[15:39]

Ólafur Björnsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu lagafrv. og þeim umræðum sem hafa farið fram um það. Hér er auðvitað um mjög mikilvægt mál að ræða.

Mér sýnist að réttarstaða útlendinga sé ágætlega tryggð í þessu frv., og vil sérstaklega þá nefna m.a. í 34. gr. þar sem gert er ráð fyrir réttaraðstoð til útlendinga. Ég vil einnig nefna ýmiss konar aðstoð sem gert er ráð fyrir í lögunum að útlendingar eigi að fá og ég tek undir að það sé mjög eðlilegt að þeim gefist kostur á íslenskunámskeiði og öðrum slíkum námskeiðum um okkar kerfi. Ég sé samt svo sem ekki neina sérstaka ástæðu til að slíkt sé algerlega endurgjaldslaust. Ég held að slík námskeið sem boðið hefur verið upp á hafi ekki verið svo óhóflega dýr að til of mikils sé mælst að þeir taki þátt í þeim kostnaði. Þeir útlendingar sem á annað borð eru komnir hingað og ætla að setjast hér að og hafa hér atvinnu ættu að hafa efni á því.

Varðandi það sem kom fram í umræðunni áðan um að hér væri spurning um réttarstöðu í réttarríki held ég að það sé mjög mikilvægt að í lögunum séu mjög trygg og nauðsynleg ákvæði um að hingað komi ekki til lands hættulegt fólk sem hefur orðið uppvíst að afbrotum. Ég tek undir með dómsmrh. að hér er um ákvæði að ræða sem eru sambærileg og víða annars staðar, og ég tel eðlilegt að þau séu með þessum hætti. Ég held að ekki sé ástæða til að óttast neitt sérstaklega að við séum að ganga of langt og troða á einhverjum réttindum. Þvert á móti held ég að þetta séu nauðsynleg ákvæði.

Það er mjög mikilvægt að heildstæð löggjöf sé fyrir hendi og ég tek undir það sem hér hefur komið fram um að Útlendingastofnun verði öflug og nauðsynleg. Ég held að mjög gott sé að hafa þessi mál á einum stað. Þetta þarf ekki að vera svona dreift og úti um allt. Þetta er heldur þunglamalegt í dag finnst mér fyrir þá útlendinga sem koma hingað í vinnu. Þeir þurfa að fara talsvert á milli staða og verkalýðshreyfingin hefur verið að skipta sér dálítið mikið af þessum málum, of mikið að mínu mati. Það er spurning hvort ekki sé hægt að samræma þetta betur þannig að hægt sé að sækja sér á einum stað réttindi til að fá hér atvinnu og starfa.

Ég held að miðað við þessi lög tökum við fólki hér opnum örmum sem hingað vill koma og starfa og búa í umhverfi okkar. Ég hef ekki séð annað en að við tökum því fólki vel sem hingað kemur með góðum hug og vill búa hér hjá okkur, og þessi lög tryggja því ágæta réttarstöðu.