Kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 16:03:06 (4051)

2002-02-05 16:03:06# 127. lþ. 69.4 fundur 371. mál: #A kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla# (dreifing ösku, kirkjugarðaráð o.fl.) frv., GunnS
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[16:03]

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. til laga um breyting á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.

Það ákvæði sem vekur mesta athygli í frv. er sú heimild sem frv. gerir ráð fyrir að leyfa dreifingu ösku hins látna um öræfi eða yfir sjó. Nú er það svo, herra forseti, að góð sátt hefur verið í landinu um útfarar- og greftrunarsiði. Það er mjög mikilvægt að um þá siði ríki sátt og festa. Og það hefur verið svo í aldanna rás.

Það ákvæði sem hér er til umræðu lætur lítið yfir sér við fyrstu sýn en þegar nánar er að gætt, þá kann að vera hér á ferðinni allróttæk breyting. Allar breytingar sem gerðar eru á útfarar- og greftrunarsiðum þarfnast vandlegrar íhugunar. Þetta frv. hefur verið undirbúið af nefnd valinkunnra manna og er mér kunnugt um að allir þeir einstaklingar sem sátu í þeirri nefnd hafa góða þekkingu á þessu málefni. Mér er einnig kunnugt um, eins og hæstv. ráðherra upplýsti, að kirkjuþing hefur afgreitt þetta mál og samþykkt það fyrir sitt leyti. En ég hef ekki orðið var við mjög mikla umræðu um málið á meðal þjóðarinnar.

Komið hefur fram, og kemur að vísu fram í grg. með frv., að einhverjar óskir um að leyfa dreifingu ösku látins manns yfir haf eða öræfi, óbyggðir, berist ráðuneytinu. Ekki hefur komið fram við umræðuna hversu margar þessar óskir kunna að vera á ári, en eins og kunnugt er hefur þetta mál ekki verið mjög mikið rætt. Ég hef starfað í kirkjunni í 20 ár og ég get sagt frá því hér að það hefur einu sinni gerst á starfsferli mínum að þetta hafi komið til umræðu við útför.

Það eru nokkur atriði sem ég vildi nefna sem skipta máli í umræðunni og ég óska eftir að allshn. skoði vandlega þegar hún fer yfir málið.

Í fyrsta lagi: Hver á að hafa eftirlit með dreifingu öskunnar? Hér er kveðið á um að aðstandendur fái öskuna afhenta samkvæmt leyfi frá ráðuneytinu og síðan fullt frelsi til að dreifa öskunni á þann stað þar sem leyfið mælir fyrir um. En það kemur ekki fram að neitt eftirlit eigi að vera með að þetta sé gert með þeim hætti sem lögin kveða á um. Það er mjög mikilvægt að öllum siðum hvað útför og greftrun snertir sé sýnd hin fyllsta virðing og að eftirlit sé tryggt í lögum að svo sé. Og þannig hefur það verið í gegnum tíðina.

Í lögunum er kveðið á um að ótvíræð ósk hins látna verði að liggja fyrir um að öskunni eigi að dreifa. Þetta fjallar sem sagt um rétt einstaklings til þess að ráða hvar og hvernig hann hvílir eða réttara sagt ráða hvernig farið verður með jarðneskar leifar að honum látnum.

En það eru fleiri aðilar að slíku máli og það eru ástvinir og aðstandendur. Ég veit að aðstandendum, flestum aðstandendum og ástvinum er það mjög mikilvægt að eiga helgan stað, ákveðinn helgan stað sem helgaður er minningu látins manns. Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir þessu meðan allt leikur í lyndi í lífinu en þegar vegið er og metið og einstaklingur leggur fram ósk um hvernig með sig verður farið að sér látnum, þarf að taka tillit til fleiri sjónarmiða en einvörðungu persónulegra hagsmuna.

Það er mjög mikilvægt, og ég ítreka það, að aðstandendur geti leitað á helgan stað sem helgaður er minningu látins ástvinar. Hér er þessu ekki til að dreifa. Það verður bannað samkvæmt þessum lögum að setja upp neins konar minnisvarða á þeim stað þar sem öskunni verður dreift. Ljóst er að erfitt verður um vik að gera það ef henni verður dreift yfir haf. Það eina sem lögin kveða á um er að getið verður um í legstaðaskrá hvernig með öskuna var farið.

Herra forseti. Varast verður alla lausung og allt lauslæti í þessum efnum. Fólki er mjög ofarlega í huga þegar fjallað er um greftrunarsiði og greftrunarhætti að þar ríki festa og að það sé gert þannig að ýtrustu virðingar sé gætt.

Ég þekki það frá útlöndum, sérstaklega frá Bandaríkjunum, að sá siður hefur fest rætur að dreifa ösku yfir haf eða á óbyggða staði og jafnvel í þéttbýli, sem ekki er gert ráð fyrir í þessu frv. Ég er ekki viss um að skynsamlegt sé að innleiða slíka erlenda siði. Það er spurt um það hér, eða réttara sagt komið fram með þau rök, að það kunni að vera trúarlegar ástæður fyrir því að rétt sé að heimila þennan sið. Ég þekki ekki þau trúarbrögð sem krefjast þess að þannig verði farið með jarðneskar leifar látins manns, en ég þekki eigi að síður til ákveðinnar útgáfu af trú sem tengd er umhverfishyggju eða ákveðinnar útgáfu af hindúisma, þar sem þetta þykir við hæfi. En það væri gott ef fyrir lægju upplýsingar um það hvort eitthvert trúfélag á Íslandi hefur óskað sérstaklega eftir því að þetta verði sett í lög, af því að vitnað er til þess í greinargerð að það kunni að vera trúarlegar ástæður sem krefjist þess að þetta verði að leyfa.

Herra forseti. Þetta er ekki bara spurning um trúfrelsi og persónufrelsi. Þetta er líka spurning um rétt aðstandenda og ástvina. Þetta er spurning um hvernig þeir mega og geta minnst látins manns. Ég tel að taka verði nokkurt tillit til þess réttar. Ég vil leggja áherslu á að auðvitað á að virða óskir látins manns eins og allar aðstæður leyfa en þær verður alltaf að meta í ljósi aðstæðna og í ljósi þess að ástvinir geti vel við unað.