Kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 16:21:29 (4056)

2002-02-05 16:21:29# 127. lþ. 69.4 fundur 371. mál: #A kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla# (dreifing ösku, kirkjugarðaráð o.fl.) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[16:21]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Ég vil taka undir orð hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar í þessari umræðu. Hér er verið að opna á að hægt sé að dreifa ösku látinna um öræfi eða sjó.

Ég vil taka undir þau orð hv. þm. að þessi umræða hefur ekki farið fram í samfélaginu. Þetta mál er þannig ekki brýnt framfaramál. Oft er það nú þannig á þinginu að menn koma fram með mál sem hafa kannski ekki verið á vörum margra en geta skipt miklu máli fyrir samfélagið og haft mótandi áhrif í sambandi við nýjungar, t.d. í atvinnulífi og öðru. En þetta mál er af allt öðrum toga og tel ég ástæðulaust að Alþingi hafi frumkvæði í því.

Það hefur verið minnst á aðstandendur hinna látnu, að þeir geti haft ákveðinn stað til að koma á og minnast ástvina sinna. Ég held að það sé mjög mikilvægt, alla vega eftir því sem ég þekki til af þeim vettvangi sem ég hef starfað á, í kirkjunni.

Það má velta því fyrir sér, ef þetta verður að lögum, hvort fólk mundi t.d. óska sérstaklega eftir því að ösku þeirra yrði dreift í Hallormsstaðaskógi vegna einhverra augnablika sem áttu sér stað þar, eða í Atlavík. Af hverju ekki þar? Eða inni í Kjarnaskógi á Akureyri o.s.frv. Svona mál verða að hjartans málum og fólk getur farið að krefjast þess á grundvelli réttlætis og jafnræðisreglu að það fái að dreifa ösku látinna um víðan völl.

Síðan, ef ösku er dreift um hálendi, mun koma krafa um að það verði reistir minnisvarðar. Ef það verður ekki leyft þá er ég nokkuð viss um það að menn munu freistast til þess að fara ekki alveg eftir öllum reglum. Við vitum, varðandi þá sem vilja láta brenna sig þegar þeir eru dánir, að þegar þeir eru lagðir til hinstu hvílu þurfa aðstandendur þeirra að skrifa undir skilmála í sambandi við kirkjugarðana um að minnisvarðarnir verði ekki stærri en grafreiturinn. Það hefur borið við, herra forseti, að sumum hafi þótt vera fullmikið viðhaft á slíkum reitum í kirkjugörðum í dag.

Síðan má velta því fyrir sér að þeir sem ferðast um hálendið og eiga enga ættingja látna sem hafa verið brenndir og ösku þeirra dreift um hálendið, hvað með þá? Getur verið að einhverjum mundi finnast jafnvel óþægilegt að vera að ganga um hálendi þar sem búið er að dreifa miklu af ösku látinna manna og finnast eins og þeir væru á einhvern hátt að ganga á þeim eða troða á minningu þeirra? Ja, hvað hugsar fólk? Allt þetta snertir tilfinningar fólks og hefur í sjálfu sér ekki endilega mikið með skynsemi að gera. Auðvitað skiptir það líka miklu máli í þessu sambandi.

Ég tek heils hugar undir með bróður mínum, séra Gunnlaugi, hv. þm., það sem hann hefur lagt til og styð að allshn. íhugi þetta vel í umfjöllun sinni, hvort ekki sé rétt að taka þetta jafnvel út. Ég ítreka, herra forseti, það sem ég sagði, að þegar búið er að dreifa ösku látinna manna á ákveðna staði á hálendinu að þá hefur það ekki bara áhrif á aðstandendur hinna látnu heldur líka almenna ferðamenn.